Like a Version er vikulegur liður á áströlsku útvarpsstöðinni Triple J, þar sem bæði ástralskir og alþjóðlegir listamenn koma fram í beinni í hljóðveri stöðvarinnar og flytja eitt lag eftir sjálfan sig og eina ábreiðu, yfirleitt.
Fyrir þremur vikum kíkti hljómsveitin Northeast Party House í hljóðver Triple J og flutti ábreiðu af laginu Red Bone eftir Childish Gambino (sjá hér fyrir ofan). NPH er ástralskur tónlistarhópur skipaður sex flytjendum sem var stofnaður árið 2010.
Red Bone er að finna á þriðju hljóðversplötu Childish Gambino, Awaken, My Love! sem kom út 2. desember 2016. Lagið samdi Childish Gambino og var það hinn sænski Ludwig Goransson sem pródúseraði. Orðið redbone merkir „þeldökk kona sem er fremi ljós á hörund“ („light-skinned black woman“).
Redbone hefur slegið rækilega í gegn frá því að það kom út: hljómaði það meðal annars í kvikmyndinni Get Out sem kom út á árinu. Fyrr á árinu var Childish Gambino gestur Jimmy Fallon og flutti hann lagið í beinni (sjá hér fyrir neðan).
Sjálfur var Childish Gambino gestur Like a Version árið 2015 og flutti hann lagið So Into You eftir Tamia.