Rithöfundurinn og blaðamaðurinn Malcolm Gladwell fór nýlega í loftið með hlaðvarpið Revisionist History, þar sem hann leitast við að varpa nýju ljósi á fræg söguleg atvik.
Alls hafa fimm þættir litið dagsins ljós en fáir þættir hafa vakið jafn mikla athygli og þátturinn The Big Man Can’t Shoot sem kom út í lok júní.
https://revisionisthistory.com/episodes/03-the-big-…
Þátturinn segir frá því þegar Wilt Chamberlain, leikmaður Philadelphia Warriors, sló stigametið í NBA deildinni með því að skora 100 stig gegn liði New York Knicks (leikurinn fór fram þann 2. mars 1962 í Hershey, Pennsylvania.)
Lykillinn að þessari ótrúlegu frammistöðu var einföld: ömmuskotið.
Wilt Chamberlain var stór maður: 2.16 á hæð og 125 kíló. Ólíkt flestum öðrum miðherjum, hins vegar, þá var Wilt Chamberlain einnig sérdeilis lipur körfuboltamaður.
„Hann var jafn stór og eikarviður en jafn þokkafullur og balletdansari,“ segir Gladwell.
En þó svo að Wilt Chamberlain hafi verið fimur körfuboltamaður sem gat skorað hvaðanæva af vellinum þá var það eitt sem hann gat bara alls ekki: hitt úr vítaskotum. Wilt Chamberlain var með 40% nýtingu frá vítalínunni að meðaltali.
En á þessu leiktímabili breytti hann um skotstíl. Wilt Chamberlain tók upp á „ömmuskotinu.“
Í þessum sögufræga leik nýtti Chamberlain 28 af 32 skotum frá vítalínunni sem er met út af fyrir sig; enginn leikmaður hefur skorað jafn mörg stig frá vítalínunni (87.5% nýting).
Það sem meira var þá var Wilt Chamberlain einnig þunnur. Kvöldið áður hafði miðherjinn farið út á lífið með konu sem hann kynntist á barnum. Þetta var klassískur Wilt. Hann sagðist eitt sinn hafa sofið hjá 20.000 konum.
Í þættinum spjallar Malcolm Gladwell við kempuna Rick Barry, sem er frægur fyrir það að vera ein besta vítaskytta í sögu NBA. Rick Barry átti einu sinni aðeins níu feilskot frá vítalínunni yfir heilt leiktímabil (Lebron James klúðrar um 150 vítaskotum á hverju leiktímabili að meðaltali.)
Samkvæmt Rick Barry þá er ömmuskotið eina vitið:
„Frá eðlisfræðilegu sjónarhorni er þetta mun einfaldari hreyfing. Það er svo fátt sem getur farið úrskeiðis.“
(Sjá myndband hér fyrir neðan):
Í þættinum The Big Man Can’t Shoot spyr Malcolm Gladwell hvers vegna fleiri körfuboltamenn nýti sér ekki þessa áhrifaríku tækni.
Svarið er mjög áhugavert.
SKE hvetur áhugasama um að gerast áskrifendur á iTunes.
Fyrir þá lesendur sem kannast ekki við Malcom Gladwell þá gerði hann „10.000 klukkutíma regluna“ fræga (talið er að það taki einstakling 10.000 klukkutíma til þess að ná fullkomnu valdi á einhverri tiltekinni iðju). Malcolm Gladwell skrifaði um regluna í bókinni Outliers.