Auglýsing

„Leikarinn er íþróttamaður sálarinnar.“

SKE spjallar við Þorvald Davíð Kristjánsson og Völu Kristínu Eiríksdóttur

Ég gæti aldrei verið leikari. Ég gæti aldrei verið leikari vegna
þess að mér geðjast ekki að því þegar stór hópur mannvera
starir á mig þögullega. Þegar stór hópur mannvera starir á
mig þögullega byrja ég að efast um samsvörun og háttalag
eigin útlima. Ég velti því fyrir mér hvort að ég standi
asnalega, hvort að eyrun á mér séu sérkennilega útstæð
eða hvort að höndum mínum sé best varið í eða úr vasa …
vasi … ekki vasi … vasi … ekki vasi. Ég glata sjálfum mér
í þessum hugleiðingum og get engan veginn munað hvað
ég ætlaði mér að segja. Ég stend bara og þegi og fitla
eitthvað í vösunum. Ég er á allan hátt eins og vandræðalegur
smástrákur sem er í þann mund að míga í buxurnar. Já, herra
minn: Þegar það kemur að stórum hópum mannvera þá dreg
ég línuna staðfastlega á tölunni tíu. Ég neita að tjá mig fyrir
framan fleiri en tíu manns. Um leið og ég sé að tíu mannverur
eru saman komnar til þess að hlýða á það sem ég hef að
segja þá dreg ég mig snarlega til hlés og segist nauðsynlega
þurfa að tala við mann varðandi hund (I gotta see a man
about a dog).
Í gær spjallaði ég hins vegar við tvo leikara
sem glíma ekki við þetta vandamál, við þennan svokallaða
hópkvíða. Þau Þorvaldur Davið Kristjánsson og Vala Kristín
Eiríksdóttir, sem leika aðalhlutverkin í leiksýningunni At (sem
verður frumsýnd á föstudaginn), eru vön því að koma fram
fyrir framan fullan sal af fólki. Fyrir þeim er þetta eins einfalt
og að drekka sítrónuvatn í eyðimörkinni.

Ég geng inn í Borgarleikhúsið og heilsa Steinunni í afgreiðslunni.
Ég er mættur alltof snemma. Steinunn spyr hvort að ég vilji ekki
tylla mér á sófann. Ég geri það. Ég sit. Ég bíð. Ég skrifa eitthvað
í stílabókina mína. Tíu mínútur yfir fjögur þá geng ég inn
í kaffistofu starfsmanna Borgarleikhússins. Þar stendur
Þorvaldur að máli við einhvern gaur. Ég bíð þangað til að
þeir klára samtalið. Ég kynni mig. Hann segist ætla sækja
Völu. Þau hitta mig svo í sófanum frammi. Við vindum
okkur strax í viðtalið. ‚Straight to business.‘

SKE: Hvernig hefur undirbúningurinn gengið?

Þorvaldur: Mjög vel. Fyrir mig, persónulega, þá er ég mjög
þakklátur fyrir að geta leikið einhvern annan en þennan
hefðbundna ‚góða gæja‘ og farið út í hlutverk sem er
meira brútal.
Ég hef ekki gert það í langan tíma. Svo er
líka ánægjulegt að vinna með fólki sem er nýútskrifað frá
leiklistarskóla; það er svo uppfullt af orku og til í allt.

SKE: Hvað getið þið sagt mér um verkið sjálft, At?

Vala Kristín: Þetta er verk sem gerist í rosalega
samkeppnismiðuðum heimi. At gerist á toppi
viðskiptaheimsins þar sem fólk svífst einskis til þess að
komast áfram. Þetta er svipað og the Apprentice nema vel
skrifað og vel leikið. Persónurnar í leikritinu eru að reyna að
halda starfinu og stöðunni sem að þau hafa komist í. Þeim er
alveg sama um náungann. Þetta er fólk sem er gjörsamlega
drifið áfram af metnaði, ytra byrði og útliti.

Þorvaldur: Þetta er einnig frábærlega vel skrifað verk, eftir
unga Breska skáldið Mike Bartlett. Það sem heillar mig
sérstaklega við verkið er það að bretinn hefur svo mikla
tilfinningu fyrir tungumálinu; þetta eru skylmingar með orð.
Leikritið er ekki nema klukkustund að lengd – þannig að
fólk ætti ekki að sofna. Það er nóg að gerast. Mikið ofbeldi.
Vonandi einhver húmor. Verkið heitir ‚Bull‘ á ensku.

https://en.wikipedia.org/wiki/Mike_Bartlett_(playwright))

Ég segist hafa átt í erfiðleikum við að finna enska heitið á
verkinu.

Vala Kristín: Það er erfitt að þýða þetta. ‚Bull‘ vísar í
nautaatið. Snið verksins svipar til þess. Það eru allir komnir
til þess að horfa á nautið. Áhorfendur vita hvers bíður þeirra,
en elska samt að horfa á baráttu nautabanans við nautið,
vitandi að þeir eru líka sjálfir í hættu. Það er enginn öruggur.
Markmiðið er samt að bana nautinu.

Þorvaldur: Einnig að fylgjast með nautinu. Sjá hversu sterkt
það er. Hversu lengi það lifir.

Vala Kristín: Þetta er grunntakturinn í verkinu. En svo
yfirfærir höfundurinn skrifstofumenninguna ofan á þetta allt
saman.

Þorvaldur: Hann sviðsetur þetta í viðskiptalífinu. Þar sem við
notum orð í staðinn fyrir sverð.

SKE: Svipar þetta til leiklistarheimsins?
Var þetta svona í áheyrnarprófinu?

Vala Kristín: Ekki hjá mér. Ég var ekki að hjóla í aðra til
þess að hefja mig upp. En auðvitað var maður í ákveðni
samkeppni.

Þorvaldur: En maður getur sagt að þetta eðli mannsins
sé ríkjandi víða.

Vala Kristín: Flestir eru hæfir um þessa hegðun.

Þorvaldur: Farðu inn á leikskóla: ‚heyrðu, þetta er mitt
dót!‘ Svo er bara slegist um dótið. Þetta hjarðeðli fólks
og þetta dýrslega eðli er víða. Kannski sjá þeir, sem
koma á sýninguna, þetta í sjálfum sér.

Vala Kristín: Einmitt vegna þess að þetta er ekki það skýrt.
Það er ekki alltaf skýrt hver er fórnalambið og hver er
árásarmaðurinn. Eins og leikskólakrakkinn sem lemur frá sér og
segir: ‚þetta er dótið mitt!‘ Hann upplifir sig sem fórnalamb
en á sama tíma er hann ofbeldismaður. Svo kemur fóstran
og viðkomandi er allt í einu orðinn saklaus.

Þorvaldur: Stundum er ofbeldi augljóst, stundum ekki.

SKE: Einmitt eins og þú segir með leikskólabörnin.
Þar er oft þetta mannlega eðli í sinni tærustu mynd.


S
vo vitna ég, hégómlega, og undir rós, í sjálfan mig …

SKE: Við erum öll börn Guðs, nema börnin – þau eru
náskyldari djöflinum.

Vala Kristín: Satt. Þarna ertu með ákveðinn sandkassaleik
en svo bætir þú ofan á það fágun og gáfum. Þetta fólk
er svo miklu hæfara að leyna því sem þau eru að gera á
meðan börn eru svo bókstafleg.

SKE: En í leiksýningunni þá eru menn kannski
meira að fela sig á bakvið orð og hugtök?

Þorvaldur: Það sem gerir þetta svona skemmtilegt er
að maður hefur séð svona aðstæður áður. Manni finnst
þær vera ógeðslegar. Þetta er líka kosturinn við það að
vera leikari. Maður fær að upplifa alla mannlega ‚impulse-a‘.
Án allra veggja. Maður getur leyft sjálfum sér að fara inn
í eitthvað ofboðslega fallegt eða ógeðslegt. Því í
raunveruleikanum er maður stöðugt að sía sjálfan sig.
Ekki það að maður sé líkur þessu fólki – alls ekki. En þetta
eru mannlegar hvatir sem menn upplifa en reyna svo að
bægja frá vegna þess að reglur samfélagsins segja ‚nei‘.

Vala Kristín: Kristín (Kristín Eysteinsdóttir, leikstjóri
verksins) hefur oft sagt við mig í ferlinu: ‚njóttu‘.


Vala hlær.

Vala Kristín: Ég reyni kannski að bæta einhverri
manngæsku í hlutverkið og einhverju sem er nær
því sem ég mundi gera. En þá segir hún mér að fara
fjær sjálfri mér og að kafa dýpra inn í þessa persónu:
‚Leyfðu þér að vera tík þegar hún er tík.‘

Þorvaldur: Þetta hefur einmitt verið mesta áskorunin fyrir
mig. Maður segir oft við sjálfan sig: ‚þetta er ljótt. Það
gerir enginn svona. Hvernig getur einhver verið svona
vondur?‘ En sumt fólk er svona. Áhorfendur verða að
sjá það. Það er hlutverk okkar í leikhúsinu að sýna hið
mannlega eðli.

SKE: Þetta hlýtur einnig að vera ágætis útrás. Eins og
þú segir, Þorvaldur, leiklistin er tækifæri til þess að lifa
sig inn í alla þessa tilfinningaheima án afleiðinga.

Vala Kristín: Eins og Eysteinn í mínu tilfelli (Eysteinn
Sigurðsson er einn af aðalleikurum sýningarinnar).
Ég er mjög oft andstyggileg við Eystein, sem er einnig
bekkjabróðir minn til þriggja ára.

SKE: Eysteinn er frændi minn.


Þau hlæja: ‚já, okey!‘

Vala Kristín: Hann er rosalega góður vinur minn og
ég veit að hann er einnig að hafa gaman af slaginum.

SKE: Það hlýtur samt að vera erfitt að níðast á
Eysteini; hann er svo fínn gaur.

Þorvaldur: Það er eitt af stærsta vandamáli mínu.

Þorvaldur hlær.

Vala Kristín: Ég fór einu sinni að gráta á æfingu því að ég
fékk svo mikla samkennd með Eysteini: ‚Elsku Eysteinn.‘


Við hlæjum.

SKE: Svo er verkið frumsýnt á föstudaginn. Eruð þið
ekki stressuð?

Vala Kristín: Ég er mjög spennt. Þetta er líka svo
gaman því að þetta er svo mikil ábyrgð. Ég tala
nú ekki um eins og fyrir mig og Eystein. Við erum
helmingur af sýningu þar sem við getum ekki stutt
okkur við leikmuni eða neitt slíkt. Þetta er rosalega
viðkvæm sýning og það er svo spennandi. Við höfum
æft okkur vel en við þurfum samt sem áður að vera á
tánum svo að þetta falli réttu megin við línuna.

Þorvaldur: Við erum svo berskjölduð á sviðinu. Þetta
er ekki stór mekanismi. Það sem heldur þessu saman
er hlustunin. Það þurfa allir að vera samstilltir í svona
viðkvæmu verki. Í grunninn þá er sviðið hálfgerður
boxhringur – á miðju sviðinu. Áhorfendum er plantað
alveg í kring.

Vala Kristín: Þau eru mjög nálægt okkur. Það er aldrei
dregið fyrir sviðstjaldið og ný sena; þetta er bara ein
löng sena. Við höfum ekki mikla leikmynd og nánast
ekkert ‚props‘. Við höfum bara orðin og hvert annað.

SKE: En samt eruð þið ekkert stressuð?

Vala Kristín: Nei. Þetta er það sem maður hefur lært að
gera. Það sem maður vill gera. Þetta er bara snilld. Það
er engin kvíði, bara eftirvænting.

SKE: Vala, þú varst í LHÍ og Þorvaldur þú varst í
Julliard. Nálgist þið hlutverkin ykkar á mismunandi
hátt?

Þorvaldur: Kosturinn við leiklistina er sá að það er engin
ein aðferðarfræði. Eins og góður kennari sagði einhvern
tímann við mig í náminu þá er engin ein leið að sama
markmiði.

Þorvaldur teygir sig í átt að kaffibolla á borðinu. Hann sýnir
mér og Kristínu að það eru mismunandi leiðir til þess að
sækja kaffibollann. Þorvaldur er eins og einhverskonar Mr.
Miyagi leiklistarinnar – og ég er Ralph Macchio.

Vala Kristín: Það eru allir með sína leið að hlutunum.
Námið sem ég fór í gegnum í LHÍ er ekki sama nám og
sá sem útskrifaðist í fyrra fór í gegnum. Stundataflan
breytist stöðugt. Leiklistarskólinn er einfaldlega
vettvangur þar sem þú færð að prófa mismunandi
hluti. Þú hefur reynslumikið fólk sem kynnir þig fyrir
mismunandi aðferðum. Þorvaldi var kennt eitthvað
og mér var kennt eitthvað annað. Í grunninn eru þetta
bara mismunandi leiðir að sama markmiði. Það sem
mér finnst merkilegast, og gefur mér tilfinningu fyrir
því að okkar nám hafi verið sambærilegt, er að við
getum talað saman um vinnuna og við skiljum hvort
annað.

SKE: Þið hafið í rauninni ekki tileinkað ykkur neina
eina aðferð?


Vala Kristín: Við erum yfirleitt á sömu blaðsíðu
varðandi sýninguna. Við finnum þegar það
er gott og við finnum það þegar það er slæmt.

Þorvaldur biður mig um að gleyma því sem hann
sagði um bollann. Honum finnst Völu hafa komist ágætlega
að orði.

Þau hlæja.

Þorvaldur: Mig langar samt að bæta við og segja
að í grunninn er þetta alltaf mjög einfalt. Þetta er
alveg eins og í flestum öðrum fögum: Einfaldleikinn
ræður að lokum. Þetta snýst um hlustun, að vera
á staðnum, að vera skýrmæltur og að vita hvað þú
ert að segja, hvert þú ert að fara, að þekkja heim
verksins – og að hafa gaman að þessu. Eins og vinur
minn sagði; og ég ætla að reyna að fara ekki út í
móa með þetta …

Vala hlær.

Þorvaldur: Nám er í rauninni bara 20% forskot á
aðra sem eru í einhverju fagi. Áttatíu prósent er
bara reynsla og það sem gerist. Námið flýtir fyrir.
Það hjálpar þér að komast að réttri niðurstöðu. Nám
gerir voða lítið annað.

SKE: Ég er alveg fullkomlega sammála þér.

Þorvaldur: Þannig er bara lífið. Þú þarft ekkert
endilega að mennta þig í einhverju. Þú þarft bara að
spyrja réttu spurninganna; þetta snýst um forvitni.

SKE: Það var einhver sem orðaði þetta svo vel:
‚Í skólanum kynnist þú því sem þú þarft að læra
seinna meir.‘

Vala Kristín: Það ætti engin að halda að hann sé
búinn með námið þegar hann útskrifast. Þetta er
rétt að byrja þá.

Allan ljósmyndari hringir í Völu. Ég átta mig á því að
síminn minn er á ‚silent‘.

Þorvaldur: Artaud talaði um að leikarinn væri
íþróttamaður sálarinnar. Ég held að það sé tenging
milli þess að vera íþróttamaður og leikari á margan
hátt. Það sem gerir leiklist öðruvísi en önnur fög er
að hún er ekki einungis vitsmunaleg, hún er líka svo
mikið …

Kristín leikstjóri gengur inn í samtalið og tilkynnir Þorvaldi
og Völu að Sirrý sé að koma frá Hringbraut. Sirrý er líka í
viðtalsgjörðum (Sirrý á samt ekkert í mig). Kristín kveður.
Ég bið Þorvald að halda áfram; það er eitthvað svo heillandi
við þessa pælingu varðandi íþróttamann sálarinnar. Ég
velti því fyrir mér hvort að ég ætti að titla mig þetta í
símaskránni.

Þorvaldur: Það sem gerir leiklistina ólíka öðrum fögum
er að við erum að þjálfa verkfæri. Það er eins og með
aðra íþróttamenn: Þú verður að þjálfa skrokkinn áður
en þú tekur sprettinn. Við reynum rosalega mikið á
líkamann. Þú þarft að læra ákveðna ‚anatómíu‘. Þú þarft
að þekkja sjálfan þig, þú þarft að hafa rödd, þú þarft að
hafa skrokk sem getur hreyft sig á ólíkan hátt, og það
tengist þessari íþróttapælingu. Þetta lærir þú í náminu.

SKE: Ertu þá tengdari eigin líkama eftir
leiklistarnámið? Eruð þið meðvitaðri um eigið sjálf?

Ég fer að tala um lyftingar. Segist tengjast eigin líkama
betur eftir margra ára puð í ræktinni. Ég er samt ekkert
massaður.

Þorvaldur: Ég held það, já.

Vala Kristín: Hundrað prósent. Án þess að fara út í
einhverja væmni. Samhliða skólanum þá þurfti ég að
taka sjálfa mig í gegn. Ég hef alltaf verið dugleg að
sinna sjálfri mér líkamlega. En í náminu varð ég meira
meðvituð um hið andlega.

SKE: Þetta er örugglega frábær sjálfskoðun?

Þorvaldur: Maður þarf að þekkja sjálfan sig. Þú ert
að horfa á sjálfan þig gera alla þessa hluti. Þú ert
leikbrúða þíns eigins sjálfs. Þú þarft að vera þokkalega
skýr í kollinum til þess að geta þetta – til þess að skapa
einhvern sem er ekki þú.

Vala segir að leikarinn verði að vinna markvisst gegn
egó-inu sínu.

Þorvaldur: Þó að sjálfskoðun sé nauðsynleg í
æfingarferlinu, þá þarf maður að læra að hunsa þessa
rödd í hausnum á sér þegar maður er á sviði. Þessi rödd
sem segir þér að þú sért asnalegur: ‚af hverju er þessi
að sofna á fyrsta bekk? Mér líður illa. Ég heyrði ekki
hvað hann sagði. Ohhh ég missti af augnablikinu‘.

SKE: Þetta er ástæðan fyrir því að ég gæti ekki orðið
leikari. Þessi rödd er of sterk.

Þorvaldur: Þetta er þessi ritskoðun. En maður þarf
að hafa sterka sjálfsmynd en samt sem áður þarf
maður að geta hreinsað hugann.

SKE: Það er oft þannig að þegar maður kafar
mjög djúpt í eitthvað ákveðið verk, eins og þið
eruð að gera með þetta leikrit, þá er oft einhver
sannleikur sem maður dregur upp úr verkinu.
Hvað hafið þið lært af þessu ferli?

Vala Kristín: Maður sér sig í verkinu. Þó maður hafi ekki
komist með tærnar þar sem þetta lið hefur hælana, þá
eru manneskjur í mínu lífi, frá því ég var tíu ára, sem mig
hefur langað til að hringja í og biðjast afsökunar. Ég mun
örugglega gera það. Því að þá hefur maður beint eða óbeint
tekið þátt í … ég vona að fólk hati mig ekki þegar það les
þetta … en ég held að flestir hafi tekið þátt í samskiptum þar
sem maður veit að einhverjum hefur liðið illa og þú hefur
látið kyrrt liggja. Þú hefur ekki beðist afsökunar vegna þess
að þér langar ekki til þess að falla í ónáð hjá einhverjum sem
þér þykir töff eða eitthvað álíka. Mig langar til þess að …

SKE: Hringja nokkur símtöl?

Þorvaldur: Það hafa eflaust allir lent í þessum aðstæðum.
Annað hvort sem fórnarlömb eða gerendur eða áhorfendur.
Er áhorfandinn ekki gerandi á sama hátt ef hann grípur
ekki inn í? Ég held að allir sem stíga inn í þetta rými
taki eitthvað með sér og verða að þátttakendum að
einhverju leyti.

SKE: Þorvaldur, þú varst í lögfræðinni og Vala, þú
ætlaðir í læknisfræðina, á sínum tíma …

Vala hrósar mér fyrir að hafa unnið undirbúningsvinnuna
mína (hver er þessi Sirrý?)

SKE: Sjáið þið ekki eftir þessu í dag?

Þau hlæja.

Vala Kristín: Nei, alls ekki. Ég á svona framhjáhaldslíf í sálinni
við læknisfræðina; bestu vinkonur mínar eru í læknisfræði og
pabbi minn er læknir. Svo var ég í sambandi með læknanema
í þrjú ár. Ég elska læknisfræðina en mér líður mjög vel í því
sem ég er að gera.

Þorvaldur: Ég er alltaf að efast í lífinu; ég held að það sé
hollt. Mér líður rosa vel í þessu. Ég gæti ekki séð mig vera
gera eitthvað annað.

SKE: Þannig að þið eruð á réttri hillu?

Vala Kristín: Já já. Þó svo að maður mundi hætta skyndilega,
þá nýtist þetta manni allt saman.

Þorvaldur: Nathan Myhrvold, sem var áður CTO hjá
Microsoft, sagði við mig og son sinn að mikilvægasti hlutur
í lífi mannsins er sá að eyða eins miklum tíma í eitt tiltekið
viðfangsefni. Viðfangsefni sem lætur þig spyrja eins margra
spurninga og mögulega er hægt að spyrja svo að þú getir
náð þér í ákveðinn þankagang. Þennan þankagang, sem
þú hefur komist yfir, getur þú yfirfært á hvað sem er. Ég er
þakklátur fyrir það; maður getur alltaf tekið þetta með sér.
Mér finnst eins og ég geti gert hvað sem er.

Enn og aftur er ég innilega sammála Þorvaldi. Ég þakka þeim
fyrir gott spjall. SKE hvetur alla til þess að tryggja sér miða á
leiksýninguna At.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing