Síðastliðinn miðvikudag (11. júlí) gaf raftónlistarmaðurinn Andi út breiðskífuna Allt í einu á Spotify (sjá hér að neðan). Um ræðir aðra breiðskífu Anda og geymir platan átta lög.
Allt í einu kemur einnig út í efnislegu formi í takmörkuðu upplagi—eða í aðeins 500 eintökum á 12” vínyl. Í tilefni þess efnir Andi til útgáfuhófs í dag (föstudaginn 13. júlí) frá 16:00 til 18:00 í versluninni Lucky Records (Rauðarárstíg 10). Platan verður fáanleg á sérstöku tilboðsverði og líkt og fram kemur á Facebook-síðu viðburðarins mega áhorfendur búast við áhugaverðum uppákomum í formi tónlistar, gjörnings og myndbands. Harry Knuckles mun svo ljúka deginum með stæl. Veislustjórar eru þeir Gunnar Ragnarsson og Rúnar Örn Marinósson.
Nánar: https://www.facebook.com/And2i…
Þess má einnig geta að Allt í einu kemur út á vegum hins nýstofnaða listahóps Skýlið. Andi hefur undanfarið getið sér gott orð í grasrót íslensk raftónlistarlífs og vakti m.a. mikla lukku fyrr á árinu á tónlistarhátíðinni Háskar sem haldin var í Iðnó.