Fréttir
Ásamt því að spila stóra rullu í sigri Argentínu á Nígeríu í HM í gær (26. júní) kom Lionel Messi einnig blaðamanni Telefe Noticias, Rama Pantorotta, á óvart á blaðamannafundi eftir leikinn (sjá hér að ofan).
Í stuttu viðtali eftir leikinn spurði Pantorotta hvort að Messi muni eftir heillagrip sem Pantorotta gaf honum þegar þeir hittust fyrr á mótinu. Um var að ræða rauðan borða sem móðir Pantorotta gaf honum í aðdraganda keppninnar. Í kjölfar spurningarinnar lyfti knattspyrnumaðurinn knái upp buxnaskálminni og sýndi blaðamanninum að hann hefði spilað með borðann um ökklann á meðan á leik Argentínu og Nígeríu stóð.
Myndbandið nýtur mikilla vinsælda á vefsíðunni Reddit í þessum rituðu orðum og tók einn notandinn sig til og þýddi samtalið:
Pantorotta: „Í byrjun fyrsta leiks gaf ég þér eitthvað frá móður minni. Ég veit ekki hvort að þú hafir geymt það eða hent því.“
Messi: „Sjáðu: ég er með það hérna.“
Pantorotta: „Ha? Ertu ekki að grínast?“
Messi: „Nei, alls ekki.“
Pantorotta: „Þú settir hann um ökklann, borðann. Þú settir hann um ökklann?“
Messi: „Já, þú verður að þakka henni fyrir …“
Pantorotta: „Þú ert að grínast. Ég er við það að fá heilablóðfall! Í alvörunni. En bíddu! Skoraðirðu með vinstri?“
Messi: „Nei, með hægri, en samt …“
Pantorotta: „Þú skoraðir með hægri en það skiptir ekki máli.“
Messi: „Það er sama; þetta kom sér að góðum notum.“
Pantorotta (í myndavélina): „Elsku, mamma! Hann setti borðann um ökklann. Takk!“
Nánar: https://www.reddit.com/r/popul…
Óvíst er hvort að Messi hafi einnig verið með borðann um ökklann í leikjunum gegn Íslandi og Króatíu en það er nokkuð ljóst að heillagripurinn kom að góðum notum í leik Argentínu gegn Nígeríu. Líkt og blaðamaður Who Ate All the Pies ritaði: ef Argentínu sigrar mótið vita Argentínumenn hverjum þeir eiga að þakka.
Hér fyrir neðan má svo sjá það helsta úr fyrrnefndum leik.