Síðastliðinn föstudag (15. júní)—degi áður en íslenska karlalandsliðið í fótbolta atti kappi við Argentínumenn á HM—gáfu Lexi Picasso og Svala Björgvins út lagið Tendency á Soundcloud (sjá hér að ofan).
Svala Björgvins og Lexi Picasso voru gestir útvarpsþáttarins Kronik á X-inu 977 síðastliðinn mars þar sem þau ræddu samstarfið. Samkvæmt Svölu varð lagið til á aðeins þrjátíu mínútum.
Nánar: https://ske.is/grein/svala-bjor…
Aðspurð út í samstarfið sagði Svala að það hafi komið til með fulltingi internetsins:
„Ég var búin að vera aðdáandi tónlistar hans frá því að ég heyrði hana fyrst, fyrir um það bil ári síðan. Svo minnir mig að (Lexi) hafi sett athugasemd við eitthvað á Instagram hjá mér og að ég hafi svarað til baka og tjáð aðdáun mína. Síðan höfum við talað saman á Instagram. Í kjölfarið sendi (Lexi) mér takt og við náðum ótrúlega vel saman.“
– Svala Björgvins
Hér fyrir neðan má sjá viðtalið í heild.