Viðtöl
SKE: Í þessum rituðu orðum er söngkonan María Magnúsdóttir (einnig þekkt sem MIMRA) stödd, ásamt tónvísu föruneyti, einhvers staðar fyrir austan; í gær (10. júní) kom söngkonan fram á Beljandi Brugghús í Breiðdalsvík og á morgun stígur hún á svið í Fjarðarborg í Borgarfirði eystra. Sagt er að mannfólkið ferðist til fjarlægra staða til þess að dást að fólkinu sem það hunsar heimafyrir—og er það með öllu óvíst hvort að þetta eigi við Maríu; kannski hunsar hún Austfirðinga jafnt og Reykvíkinga. Kannski ekki. Hvað sem því líður mun ferðalag hljómsveitarinnar halda áfram næstu daga en sveitin hefur það fyrir stafni að troða upp á 11 tónleikum á 13 dögum—sem verður að teljast nokkuð gott. Í tilefni tónleikaferðalagsins heyrði SKE í Maríu og forvitnaðist um lífið, veginn og ýmislegt annað.
Viðtal: RTH
Viðmælandi: María Magnúsdóttir
SKE: Sæl, María—hvað segirðu gott?
María: Ég segi bara allt ljómandi, nettur spenningur í gangi!
SKE: Þú lagðir í heljarinnar túr um landið síðastliðinn laugardag. Hvernig kom hugmyndin til?
María: Hugmyndin hafði mallað svolítið lengi; hvað það væri algjörlega málið að fara hringinn og spila á landsbyggðinni. Mig langaði að fylgja plötunni betur eftir og sakna líka íslenska sumarsins og útilegustemningarinnar eftir að hafa búið dágóðan tíma erlendis. Þetta varð svo að hardcore markmiði upp úr áramótum þegar mér bauðst hjólhýsi að láni frá tengdafjölskyldunni. Þá voru dagsetningar negldar og allt planað í þaula.
SKE: „First thing’s first:“ Hvernig er veðurspáin?
María: Nú treystir maður bara á bongó blíðuna fyrir austan og norðan! Þori ekki að kíkja á veðurspána. Nei, ætli það verði ekki mest skýjað og austankaldi á Glettingi?
SKE: Eru landsleikirnir ekki örugglega sýndir á öllum þessum áfangastöðum? Eða ertu kannski ekkert spennt fyrir HM?
María: Er HM? Djók! Jú, alveg örugglega og maður á eftir að fylgjast með, með öðru auga.
SKE: Fyrir hverju ertu spenntust, þ.e.a.s. hvaða áfangastað?
María: Ég er mjög spennt fyrir öllum þessum stöðum. Ég er örugglega spenntust fyrir að spila í Seyðisfjarðarkirkju. Ég á smá taugar þangað því ég bjó mín fyrstu þrjú ár á Seyðisfirði. Svo er ég líka gífurlega spennt fyrir Beljandi Brugghúsi og gigginu á Ísafirði 17.júní. Líka glöð að spila á Græna Hattinum í fyrsta skipti. Líka á Húrra með Unu Stef. Ég get alls ekki gert upp á milli, heldur vonast bara eftir mega góðri stemningu alls staðar.
SKE: Nú er Emmsjé Gauti í sambærilegu tónleikaferðalagi, en hann hann hefur verið að gefa út myndbönd frá ferðalaginu. Stendur til að gera eitthvað svipað?
María: Já, ég sá það og það er gjörsamlega brilliant! Við erum ekki með myndatökucrew með en verðum virk í að setja in sögur og vídjó frá túrnum, bæði á Facebook og Instagram gegnum myllumerkið #MimraRoadtripTour. Endilega smellið læki á MIMRA á Facebook og @mimramusic á Instagram til að fylgjast með okkur tækla þetta!
SKE: Þú
gafst út Sinking Island í fyrra og ert einmitt að kynna plötuna
á túrnum. Ertu byrjuð að vinna í nýrri plötu?
María: Já, maður er stöðugt að semja svo það er margt framundan. Heil
plata er ekki endilega á næstu grösum en nokkrar smáskífur eru í
bígerð. Ég stefni á að gefa út næsta lag í júlí—íslenskt
sumarlag—og við spilum líka nokkur ný á túrnum.
SKE: Þú
varst útnefnd bæjarlistamaður Garðabæjar fyrir stuttu. Hvaða
fríðindi fylgja titlinum?
María: Þessu
fylgir að sjálfsögðu titillinn í glæsilegum hópi og
starfsstyrkur frá Garðabæ til frekari listsköpunnar og dáða.
SKE: Hvað
ertu að hlusta á þessa dagana?
María: Soap
& skin, Hiatus Kaiyote, Amber Mark, Sigrid og svo allt nýja eðal
stuffið sem flæðir frá tónlistarkonunum okkar!
SKE: Ef þú gætir fengið svar við hvaða spurningu sem er—hvaða spurning væri fyrir valinu?
María: Hvað felur framtíð mín í skauti sér?
SKE: Helsta prinsipp í lífinu?
María: Að hafa trú á sjálfri mér, koma vel fram við sjálfa mig og aðra, vera já-manneskja og að framkvæma það af öllu hjarta það sem ég tek mér fyrir hendur.
SKE: Eitthvað að lokum?
María: Eruð þið búin að ákveða hvar þið komið á tónleika? Ekki missa af! Ég, Sylvía og Jara erum svo reddí í’etta! Miðar á tix.is og við hurð: 2.000 ISK inn.
(SKE þakkar Maríu kærlega fyrir spjallið og hvetur lesendur til þess að láta sjá sig á væntanlegum tónleikum.)
9.júní – Kirkjuhvoll, Kirkjubæjarklaustur
10.júní – Beljandi Brugghús, Breiðdalsvík
12.júní – Fjarðarborg, Borgarfjörður Eystri
13.júní – Seyðisfjarðarkirkja, Seyðisfjörður
14.júní – Græni hatturinn, Akureyri
15.júní – Hótel Blanda, Blönduós
16.júní – Café Riis, Hólmavík
17.júní – Edinborgarhúsið, Ísafjörður
19.júní – Brúarás GEO Center, Borgarfjörður
20.júní – Dularfulla búðin, Akranes
21.júní – Húrra (ásamt hljómsveit Unu Stef), Reykjavík