Auglýsing

Aðgangur fanga að tölvum lykill að menntun og betri framtíð

Ég tek heilshugar undir með formanni Afstöðu og vil leggja áherslu á mikilvægi þess að fangar hafi greiðan aðgang að netinu, þegar horft er til menntunar í þessu samhengi, þá er sérstaklega brýnt að huga að þeim áskorunum sem fangar standa frammi fyrir þegar kemur að námi og tryggja þeim sömu tækifæri til menntunar eins og öðrum í samfélaginu.

Það virðist alveg hafa gleymst hjá þeim sem fara með fangelsismál að nútíma nám er ógjörningur án tölvu. Í dag fer nær allt nám fram í gegnum tölvur; þær eru bækurnar, skólataskan og skjalageymslan. Tölva er ómissandi þegar kemur að menntun, það eru lágmarks mannréttindi að fangar hafi jafnan aðgang til náms og aðrir.

Áhrif tölvunotkunar á nám fanga

Samkvæmt vitneskju undirritaðs og þeim upplýsingum sem hann hefur aflað sér var útskriftarhlutfall fanga í framhalds- og háskólanámi margfalt hærra þegar tölvur voru leyfðar í lokuðum fangelsum. Á síðustu árum hefur orðið gríðarleg tæknibylting í námi, þar sem tölvur eru ómissandi hluti þess. Þessi þróun hefur orðið til þess að fangar í lokuðum fangelsum verða útundan, þar sem þeim er meinaður aðgangur að nauðsynlegri tækni til að stunda nám á jafnréttisgrundvelli.

Lágmarks mannréttindi

Aðgangur að tölvum er ekki munaður heldur lágmarks mannréttindi í nútímasamfélagi. Tæknileg einangrun fanga er skref aftur á bak þegar kemur að menntun, endurhæfingu og samfélagsaðlögun.

Tölvunotkun hefur margþætt og jákvæð áhrif, hún veitir föngum aðgang að menntun og þjóðfélagsmálum, heldur þeim virkum og auðveldar þeim að aðlagast samfélaginu að nýju. Nútíma atvinnulíf krefst þekkingar á tölvu, með því að takmarka aðgang fanga að þessari tækni er verið að gera þá að eftir bátum samfélagsins. Þetta eykur hættuna á að þeir fari aftur í afbrot þar sem þeir standa verr að vígi til atvinnulífsins.

Hvatar til náms og endurhæfingar

Fangelsi eiga ekki að vera geymslur; þau eiga að vera endurhæfingarmiðstöðvar sem styðja við betrun einstaklinga. Nauðsynlegt er að innleiða hvata innan kerfisins sem hvetur fanga til náms eða annarrar uppbyggilegrar starfsemi, svo þeir geti snúið aftur út í samfélagið með ný markmið og leið til betra lífs.

Ef fangar eru hvattir til náms með bættum kjörum og auknum möguleikum á menntun, aukast líkurnar á því að þeir nýti fangavistina til uppbyggingar fremur en áframhaldandi óreglu og óminnis. Til þess að þetta sé mögulegt, þurfa fangar að hafa aðgang að tölvum alla daga, frá morgni til kvölds.

Hvatar geta verið félagslegir, fjárhagslegir eða fræðilegir. Félagslegir hvatar geta falið í sér aukin réttindi fyrir þá sem stunda nám, fjárhagslegir geta veitt afslátt af sektum og sakarkostnaði eða tryggt aðgang að vinnu innan fangelsis, og fræðilegir verið í formi námsstyrkja eða aukins stuðnings við menntun. Slíkir hvatar leiða til jákvæðra breytinga í hugsun og hegðun, sem er lykillinn að nýjum tækifærum.

Samfélagslegur ávinningur

Það er samfélagslegur ávinningur að fangar hafi aðgang að tölvum og menntun. Með því að gera þeim kleift að afla sér þekkingu og færni minnka líkur á endurteknum brotum og skilar til samfélagsisns sterkari og betri einstaklingum. Skilaboðin ættu að vera skýr: Menntun er máttur, lykillinn að betra lífi, samfélagið á að styðja við þá sem vilja breyta lífi sínu.

Það er kominn tími til að endurskoða núverandi stefnu um að takmarka aðgang fanga að tölvum. Þeir sem vilja mennta sig eiga ekki að vera hindraðir í því. Með hvetjandi úrræðum og aðgengi að tölvum er hægt auka möguleika fanga að betra lífi og skapa betra samfélag fyrir alla.

Ólafur Ágúst Hraundal
Höfundur er lífskúnstner

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing