Fanginn Ólafur Ágúst Hraundal skrifar…
Sorgmæddur ferðast hugurinn
Að lenda í fangelsi er áfall. Það er bæði áfall fyrir þann sem fer í fangelsi og líka aðstandendur viðkomandi. Í raun tekur það jafnvel meira á aðstandendur en þann sem situr inni. En því miður er þessi hópur fólks týndur í kerfinu. Aðstandendur eiga erfitt með að leita sér hjálpar vegna þeirrar skammar sem þeir upplifa og fangar fá takmarkaða hjálp þótt þeir gjarnan vildu þiggja hana. Flest allir innan kerfisins glíma við ýmsar raskanir, áföll og fíknir sem eiga sinn þátt í að viðkomandi er í þeirri stöðu sem hann/hún eru í. Kerfið er eins grátt og það getur verið. Það má ekki sýna tilfinningar. Tilfinningar eru eins og blygðunarlaust klám.
Í upphafi skyldi endinn skoða
Dómsmálaráðherra og æðstu forkólfar innan Fangelsismálastofnunar fara mikinn þar sem allt á að verða svo frábært með nýju fangelsi og fjölgun rýma á Sogni. Allt lítur þetta voðalega vel út á prenti og í orði. Hvað ætla þau að gera við þessa 14 einstaklinga sem verður bætt við á Sogn? Það er ekki nóg bara að fjölga rúmum. Það þarf líka að vera eitthvað við að vera fyrir þessa einstaklinga. Staðan á Sogni er þannig í dag að þar eru ekki næg verkefni fyrir þá vistmenn sem þar eru fyrir. Hvernig væri að byrja á réttum enda?
Í upphafi skyldi endinn skoða segir máltækið. Það er eins og það sé ætlun kerfisins að framleiða bara iðjuleysingja og glæpamenn. Hvernig væri að byrja núna að gera betur? Síðustu ár hefur átt sér stað algjör stöðnun í meðhöndlun fanga, algjör hnignun í mannlegri nálgun. Sem lýsir sér best í því stjórnleysi sem þrífst á Litla-Hrauni. Þar ríkir sú ranga hugsun að fangar eiga ekki að geta fylgt þróun samfélagsins og vaxið sjálfir sem manneskjur inni í fangelsi. Þegar Hólmsheiðin var byggð átti allt að verða svo miklu betra en hún var í raun ákveðið stórslys þegar kemur að aðbúnaði fyrir fanga.
Hólmsheiðin var hönnuð sem móttöku- og gæsluvarðhaldsfangelsi, og kvennaálmu var bætt við síðar, en í dag er hún í raun orðin afplánunar-og öryggisfangelsi. Aðbúnaðurinn sem þar er hæfir engan vegin því hlutverki. Með margumtöluðu nýju fangelsi vona ég innilega að það verði sett meiri hugsun í aðbúnað fyrir fanga í virkni og andlegri vinnu. Að fangelsiskerfið verði fært í nútímabúning þar sem fangar geti fylgt samtímanum í þeirri stöðu sem þeir eru. Að fangar hafi eitthvað við að vera og að það nýja fangelsi verði ekki enn ein skrímsla geymslan.
Ágúst var árið 2022 dæmdur í 12 ára fangelsi fyrir saltdreifaramálið svokallaða.
Allt hækkað nema laun fanga
Dagpeningar, laun/þóknun og fæðispeningar er eitthvað sem þarf að taka strax til endurskoðunar. Fangar verða að geta haldið smá sjálfsvirðingu þó takmörkuð sé. Fangar sem vinna fá í laun/þóknun 415 kr. á tímann. Þeir fangar sem hafa enga vinnu fá 3.150 kr á viku í dagpening til að kaupa sér nikótín eða það sem þeir þurfa.
Þeir fangar sem elda ofan í sig sjálfir fá 1.700 kr á dag sem er engan vegin nóg ef við horfum þá verðlagsþróun sem átt hefur sér stað í samfélaginu. Laun/þóknun hafa ekki hækkaði síðan árið 2009. Þá í 415 kr. Þá kostaði sígarettupakkin rúmar 500 kr EN í dag kostar sígarettupakkin 1.700 kr. Að fá 3.150 kr á viku í dagpeninga er skammarlegt ef horft er til verðlagsþróunnar í samfélaginu. Að fangar fái 415 kr á tímann fyrir vinnuframlag sitt er satt að segja ömurlegt. Þetta er mikil niðurlæging og vanvirðing við einstaklinginn.
Fangar í ruslflokki
Nú segja fagaðilar við fanga að fangelsi sé ekki rétti staðurinn til að vinna í áföllum. Mín skoðun er sú að fangelsi sé reyndar besti staðurinn til að vinna í áföllum. Þegar fanginn er fyrst kominn í þessa stöðu verða til tækifæri til að gera eitthvað. En eftir því sem lengra líður og ekkert er gert verður oft erfiðara að nálgast meinið. Ég hef orðið vitni að því þegar fangar festast í spíral áfalla sem ekki hefur verið unnið úr. Það er sorglegt. Það að fangar þurfi að fá leyfi til að leita sér hjálpar hjá sálfræðingum utan fangelsisins á sinn eigin kostnað sýnir getuleysi starfsmanna geðsviðs fangelsismálastofnunar. Sálfræðitími kostar 23.500 kr og síðan þarf viðkomandi að koma sér sjálfur til og frá sálfræðingi.
Þetta er mikill kostnaðarauki. Einn sálfræðitími getur því kostað fanga sirka 65 klukkustundir í vinnu. Er það sanngjarnt? Þetta er eins óheilbrigt og það verður. Þetta er í raun hreint og klárt ofbeldi. Annað dæmi gæti verið þegar fangi vill fá klippingu. Hún kostar 6.500 kr sem gerir 16 vinnustundir fyrir fangann. Er það sanngjarnt? Enn og aftur er verið að níðast á fanganum. Það er reynt eins og hægt er að hamla föngum að geta sótt sér aðstoð eða haldið sér til. Þetta er ekkert annað en ofbeldi eða mannfyrirlitning. Af hverju þarf að koma fram við fanga eins og rusl. Það er mín upplifun að okkar prúða samfélag hafi með öllu okkar góða fólki flokkað fanga í ruslflokk. Það virðist því miður gleymast hjá góða fólkinu að fangar eiga líka fjölskyldur sem allar hafa tilfinningar.
Fagurgali í stað aðgerða
Það vantar ekki fínu orðin á heimasíðu fangelsismálastofnunar en þar segir: „Meginmarkmið með fangelsun: Að föngum sé tryggð örugg og vel skipulögð afplánun, að mannleg og virðingarverð samskipti verði höfð í fyrirrúmi og fyrir hendi verði aðstæður og umhverfi sem hvetur fanga til að takast á við sín mál.„ Eina innistæðan í þessum fína orðaflaumi er: „mannleg og virðingarverð samskipti verði höfð í fyrirrúmi“, restin er innihaldslaust skraut. Því miður. Ég spyr í einlægni, hvað varð um endurhæfinguna og þá betrun sem áður var í fangelsiskerfinu? Skyldi einhverjir fleiri spyrja sig að því?