Alfreð Alfreðsson, íbúi í Vestmannaeyjum, skrifar…
Við stærum okkur gjarnan af því, að Vestmannaeyjar sé gott samfélag. Þegar í harðbakkann slær snúm við bökum saman og leysum vandamálin í sameiningu.
Þó svo að mannlífið sé fallegt er saga Vestmannaeyja átakasaga alveg fram á þennan dag. Það eru ekki mörg ár síðan síðasti sjómaðurinn hvarf í gin hafsins, vitandi að starfið hans var hættulegt en þó gefandi, sér, sínum og samfélaginu til heilla. Það eru ekki mörg ár síðan við misstum tvo glæsilega unga menn við það að reyna að bjarga ungum sjómönnum frá fjarlægu landi úr strönduðu skipi austur á ey. Þeir hikuðu ekki þegar mannslíf var í hættu. Hetjur.
Þegar áföllin dynja yfir sínum við hverju öðru hluttekningu, klöppum vinalega á bak og förum með falleg orð, erum boðin og búin ef sá sem fyrir verður þarf á okkur að halda. Þannig metum við það góða í mannlífinu, tilbúin að standa með og styðja þann sem í hlut á.
Vestmannaeyjar eru líka samfélag nándar. Málefni dagsins berast fljótt manna á milli og svo er hægt að mumla á því næstu daga á eftir. Þjóð veit þá þrír vita.
Huginn
Guðmundur Ingi Guðmundsson flutti til Vestmannaeyja árið 1955 og hóf eigin útgerð árið 1959 þegar hann keypti Huginn VE 65, útgerð sem státar af 65 ára sögu, en Huginn VE 55 sem byggður var í Chile fyrir rúmum 20 árum er þriðja nýsmíði útgerðarinnar, glæsilegt skip sem eins og hin hefur borið björg í bú, þjóðfélagi, samfélagi og starfsfóki til heilla. Pláss á Huginn var ávallt eftirsótt enda gaf það vel. Það gleymist nefnilega oft í dagsins önn þegar rætt er um afrakstur sjómanna af sínu starfi að meðan hann þénar vel, þénar samfélag og þjóðfélag líka vel í gegnum skatta og útsvar hans. Að sama skapi léttir gefandi útgerð undir með samfélaginu þegar hún styður við góð málefni, íþróttafélag og samtök sem láta gott af sér leiða. Afrakstur útgerðar Hugins fyrir samfélagið okkar og þjóðfélag skiptir tugum vatnsleiðslna milli lands og eyja. Allt þetta gleymist því miður í orðræðu dagsins þegar samfélag, þjóðfélag og útgerð leggur til þeirra sem hafa lagt samfélaginu allt þetta til með rýtinginn á lofti. Allt þetta skyldi líka lagt á vogarskálina þegar málefni dagsins eru gerð upp.
Afdrifaríkar ákvarðanir
Systurskip Hugins var Guðrún Gísladóttir, smíðuð í Kína og kom til landsins árið 2001 rétt eins og Huginn. 18. Júní ári síðar steytti það á skeri við Noregsstrendur og sökk skömmu síðar. Skipstjóri Guðrúnar lýsti því í viðtali nokkrum vikum síðar hversu skelfileg sú tilfinning það hafi verið að stranda skipinu, hvað þá að horfa á eftir því í greipar hafsins. Vikur hafi liðið áður en hann hafi getað litið bjartan dag.
Ekki veit ég hvernig líðan skipstjóra Hugins var er skipið snarsnerist þegar það lenti í vatnsleiðslunni. En í litla samfélaginu okkar þekkir maður auðvitað mann og annan og við vitum orðið öll hvernig ástandið var í brúnni á Huginn þegar fullhlaðið skipið stefndi í hraunið. Snör handbrögð komu í veg fyrir stórslys og skipið sigldi óskaddað í sína heimahöfn.
Ég reikna með því að stjórnendum Hugins sé eins innanbrjósts þessa stundina og skipstjóra Guðrúnar Gísladóttur fyrir nálægt aldarfjórðungi síðan og því ástæða til að hlúa að sálartetri þeirra þegar þeir þurfa á því að halda. Það er nefnilega ekki stórmannlegt að sparka í liggjandi mann.
Ábyrgð stjórnenda Vinnslustöðvar og samfélagsins er því mikil þegar stjórnendum skipsins sem gerðu ekkert annað en að vinna sín störf að þeirri kostgæfni sem þeir eru þekktir fyrir er mikil. Steinninn sem lagður hefur verið í veg ungs manns sem alinn er upp við sjómennsku frá blautu barnsbeini og velur sér sama stafsvettvang og faðir og afi getur orðið óyfirsíganlegur farartálmi í lífinu. Eru menn eitthvað bættari með það? Skömm þeirra er mikil.
Einar Benediktsson orti eftirfarandi í Einræðum Starkaðar, heilræði sem menn mættu gjarnan hafa í huga á ögurstundu þegar á móti blæs og ástæða er til að láta hjartað ráða för, taka utan um fólk og sýna þeim hluttekningu í stað óafturtekins æðis:
Eitt bros — getur dimmu í dagsljós breytt,
sem dropi breytir veig heillar skálar.
Þel getur snúizt við atorð eitt.
Aðgát skal höfð í nærveru sálar.
Svo oft leynist strengur í brjósti sem brast
við biturt andsvar, gefið án saka.
Hve iðrar margt líf eitt augnakast,
sem aldrei verður tekið til baka.