Auglýsing

Engin mannréttindi án málamiðlana

Í síðustu viku var nýtt útlendingafrumvarp dómsmálaráðherra samþykkt með breiðum meirihluta þingmanna. Allir í ríkisstjórnarflokkunum auk Flokk fólksins og Bergþórs Ólasonar úr Miðflokki greiddu atkvæði með frumvarpinu. Áður hafði formaður Miðflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson lýst yfir stuðningi við frumvarpið, þrátt fyrir að það hafi verið þynnt út umtalsvert, líklega til þess að stjórnarsamstarfið næði að skakklappast áfram. Svona að minnsta kosti fram á haustið. Límið í stólunum er afar sterkt á stjórnarheimilinu. Stjórnarkreppan og hið algjöra kerfishrun heldur því eitthvað áfram.

Píratar var eini flokkurinn á þinginu sem greiddi atkvæði gegn frumvarpinu, enda líklega ekki við öðru að búast þar sem flokkurinn er orðinn að einskonar flóttamannabúðum eða endurvinnslustöð fyrir öfga fjarvinstri vængsins.

Samfylkingin, sem segist reiðubúin til þess að taka við landsstjórninni, sat hjá við atkvæðagreiðsluna. Þess vegna má alveg rökræða hvort Samfylkingin sé tilbúin að taka við henni yfir höfuð. Hjáseta í stórum málum er ekki traustvekjandi.

Undanfarin misseri hefur ábyrgðarleysi og óreiða verið allsráðandi í málefnum hælisleitenda og útlendinga hér á landi. Eins og almenningur best veit, og þá sérstaklega við á Suðurnesjum, þá hefur fjöldinn verið allt of stór og komið of ört. Verulega illa hefur verið staðið að því að finna úrræði fyrir bæði fólkið sem er flutt hingað inn, og fyrir heimamenn sem lent hafa á hrakhólum bæði vegna flóttamannastraumsins og svo vegna náttúruhamfaranna á Svartsengi.

Fólkið í Reykjanesbæ og víðar á Suðurnesjum hefur ekki átt sér neina sérstaka málsvara í þessum efnum. Kannski ekki nema von. Sumir fjölmiðlar tóku upp á því að heimsækja bæinn til þess að reyna að mála bæjarbúa upp sem rasista og fordómapésa þegar þeir reyndu að koma því til skila að nú væri orðið ansi þröngt á þingi.

Þetta hefur skilað sér í því að margir voga sér ekki út í umræðuna. Skiljanlega.

Á sama tíma sjáum við fólk úr efri lögum samfélagsins – sem hefur það þægilegt í miðborg Reykjavíkur og Garðabæ, öskrandi sig rautt í framan úr bræði vegna þess að við erum ekki að hjálpa nógu mörgum og að við skulum synja öðrum um vernd.

Þarna safnast saman fólk af ysta jaðar vinstrivængsins, oft efnameira fólks sem aðhyllist póstmódernískar kenningar úr félagsvísindadeildum háskólanna og annað fólk sem af ýmsum ástæðum hvorki sjá né skilja blæbrigði.

Mér dettur oft í hug jarmandi hjörð með sár svangan úlf fyrir aftan hana.

Núna nýverið sagði oddviti Garðabæjarlistans sig úr Samfylkingunni vegna þess að hún „vill ekki gefa afslátt“ í mannréttindamálum. Þorbjörg Þorvaldsdóttir, sem er fyrrverandi formaður, og núverandi verkefnastjóri vegna svokallaðs bakslags í málefnum „hinsegin fólks“ hjá Samtökunum ´78 og bæjarfulltrúi skilur líklega ekki að mannréttindi snýst nær eingöngu um samfélagssáttmála og málamiðlanir. Mannréttindi eru ekki af eða á. Það er allur fjöldinn af breytum og blæbrigðum sem taka þarf tillit til.

Ef sami verkefnastjóri á að vinna gegn bakslagi gegn „hinsegin fólki“ hvers vegna vill hún þá flytja inn fólk sem vill það feigt?

Tökum lítið dæmi. Á Íslandi eiga konur og karlar að njóta jafnréttis í hvívetna. Skoðum málið. Á Íslandi er kaþólsk kirkja. Engin kona getur samt orðið kaþólskur prestur. Ekki einu sinni á Íslandi.

Af hverju? Jú, vegna þess að þetta er eitt af blæbrigðunum og málamiðlunum sem mannréttindi snúast um.

Stundum stangast mannréttindi á á milli hópa. Ekki meira að segja stundum. Heldur oft.

Sjáum til dæmis lögin um kynrænt sjálfræði. Núna þykir sjálfsagt að karlar séu í einkarýmum kvenna. Réttur sem tekinn var af konum án samfélagslegrar umræðu og hefur gert það að verkum að margar konur eru hættar að fara á sundstaði, bæði af siðferðilegum og trúarlegum ástæðum. Þetta er eitthvað sem við þurfum að endurskoða líka og laga.

Mannréttindi snúast um að finna málamiðlanir og lausnir. Til þess að reka mannréttindasamfélag áfram þar sem markmiðið er einmitt velsæld, friður, jafnrétti, velferð og mannleg reisn, þá þarf samfélagssáttmála sem getur haldið.

Eldur Smári Kristinsson

Formaður Samtakanna 22 – Hagsmunasamtaka Samkynhneigðra

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing