Henrietta Otradóttir, blikksmiður og nemi, skrifar…
Lögheimilisforeldrar með fjárhagslegt vald: „Foreldrajafnrétti er stærsta jafnréttismálið“
Í kosningabaráttunni heyrði ég svo oft talað um jafnrétti og jafnréttismál. Stærsta jafnréttismálið að mínu mati er foreldrajafnrétti. Það er löngu tímabært að grípa til aðgerða til að tryggja jafnan rétt foreldra sem deila forsjá og jafnri umgengni yfir börnum sínum. Í núverandi kerfi hefur lögheimilis foreldrið nánast algjört vald yfir málefnum barnsins og getur tekið einhliða ákvarðanir sem oft útiloka hitt foreldrið frá mikilvægu hlutverki sínu í lífi barnsins. Þetta er valdníðsla og kerfislægt misrétti sem skaðar bæði foreldra og börn.
Kerfisbundið misrétti gegn foreldrum
Þetta misrétti hef ég upplifað á eigin skinni. Fyrir fimm árum fékk barnsfaðir minn lögheimili dóttur okkar. Eftir mikinn þrýsting samþykkti ég það og átti það einungis að vera tímabundið í tvö ár. Það samkomulag var virt að vettugi.
Eitt af því sem ég hef orðið fyrir er að barnsfaðir minn ákvað að skrá mig ekki sem foreldri í grunnskóla dóttur okkar þegar hún hóf grunnskólanám. Þetta þýddi að ég fékk hvorki upplýsingar frá skólanum né boð um að taka þátt í skólastarfinu sem foreldri og heldur ekki neinar upplýsingar frá frístundinni þrátt fyrir viku og viku umgengni. Ég þurfti sjálf að leita til skólans til þess að vera skráð sem móðir. Að slíkt skuli yfirhöfuð vera mögulegt er óásættanlegt. Þetta er aðeins eitt dæmi um hvernig lögheimilisforeldrið getur beitt valdi sínu með óeðlilegum hætti og skaðað réttindi hins foreldrisins.
Fjárhagslegt vald lögheimilisforeldra
Á sama tíma hefur lögheimilisforeldrið einnig fjárhagslegt vald. Fyrir tveimur árum fékk ég óvæntan reikning inn á heimabankann minn vegna meðlagsskuldar sem ég hafði ekki verið látin vita af. Ég var gerð ábyrg fyrir greiðslu meðlags afturvirkt auk þess að þurfa að standa skil á reglulegu meðlagi, allt þetta þrátt fyrir að vera í mjög erfiðri fjárhagsstöðu sem námsmaður, alfarið háð námslánum.
Seinast þegar ég vissi þá var barnsfaðir minn á örorku, samt í málningarvinnu með aðeins brotabrot gefið upp, helling svart. Hann er í sambandi með manni sem tryggir honum enn betri stöðu. Hann er mjög vel staddur fjárhagslega, margar utanlandsferðir á ári, nýir bílar og fleira. Sem út af fyrir sig er bara allt í góðu ef maðurinn væri ekki að hirða meðlagsgreiðslur af einstæðri barnsmóður sinni.
Óásættanlegt misrétti sem bitnar á börnum
Barnabæturnar sem hann fær eiga að dekka kostnað fyrir frístund og tómstundum. Meðlag á að vera fyrir daglegan rekstri barnsins, en af hverju ekki bara að misnota þær glufur sem eru í kerfinu ef þú kemst upp með það?
Ég á einnig eldri strák sem ég ein ber alfarið ábyrgð á. Því hef ég takmarkaða möguleika á að bæta mína stöðu, það veit hann vel. Mín staða er ekki einsdæmi, ég heyri sífellt af svipuðum sögum. Foreldrar eiga að vera jafnréttháir í öllum málum sem varða börn þeirra, og kerfið verður að taka tillit til beggja foreldra. Það þarf að tryggja að báðir foreldrar hafi jafna stöðu í tengslum við ákvarðanir um skólagöngu, heilsu og almenna velferð barnsins.
Ofbeldi sem beitt er í gegnum kerfið
Langar að vita hvað fer í gegnum hausinn á þeim einstaklingum sem taka upp á því að beita þessu? Þetta er klárlega til þess að ná sér niður á hinu foreldrinu, ekkert annað en ofbeldi sem bitnar á barninu. Fyrir nokkrum mánuðum var ég akkúrat að fara borga eina meðlagsgreiðsluna á meðan ég hélt á blaði sem krafðist minnar undirskriftar vegna utanlandsferðar nr. 2 á þessu ári sem hann var að fara með dóttur okkar í, spáði ekki beint í því þá hvað þetta væri kjánalegt. Annað foreldrið greiðir meðlag á meðan hitt pakkar niður sólarvörninni, þetta er galið.
Ég vona að ný ríkisstjórn, sem hefur talað mikið um jafnréttismál, og ætlar að bjarga heiminum taki foreldrajafnréttinu föstum tökum. Við þurfum lög sem tryggja jafnan rétt beggja foreldra og draga úr því valdamisræmi sem einkennir núverandi kerfi. Þetta er ekki bara spurning um réttlæti fyrir foreldra, líka börnin sem eiga rétt á því að njóta sín jafn vel hjá báðum foreldrum.