Brynjar Níelsson skrifar…
Þekkt hugtök, eins og réttlæti, lýðræði, ofbeldi og öfgar, eru á fá nýja merkingu í seinni tíð. Að vísu hafa menn notað hugtakið réttlæti mjög frjálslega í gegnum tíðina og oftast til að réttlæta hvers kyns ofbeldi.
Venjulega hafa menn stofnað pólitísk félög eða samtök í sinni réttlætisbaráttu, sem er hið eðlilegasta mál. En nú hefur orðið sú breyting á að menn stofna hjálpar- og mannréttindasamtök eða félög í sinni pólitísku baráttu. Gjarnan til að berjast gegn feðraveldinu og ofbeldi gegn konum, dýravelferð eða fyrir hagsmunum fólks á flótta, sem allt er í eðli sínu mjög göfugt. En það er bara að nafninu til því í grunninn er þetta stjórnlyndisfólk að berjast gegn frelsinu.
Þetta er nú mikið til sama fólkið í öllum þessum „hjálpar- og mannréttindasamtökum“ og með svipaðar pólitískar skoðanir, sem er ekki helsta áhyggjuefnið heldur allt ofstækið og ofbeldið sem virðist allsráðandi.
Mörg þeirra eiga það sameiginlegt að ráðast með miklu offorsi gegn fólki sem hefur aðrar skoðanir eða telur það hafa gert á hlut kvenna, hinsegins fólks, fólks á flótta eða dýra án þess að sönnun liggi fyrir um slík brot. Er gengið svo langt að terrorísera fyrirtæki, stofnanir og félög sem voga sér að hafa slíkt fólk í vinnu eða nokkur samskipti við.
Þessar aðferðir voru og eru þekktar í alræðisríkjum en hafa orðið algengari í lýðræðisríkjum undanfarin ár. Framganga og fas forsvarsmanna sumra þessara hjálpar-og mannréttindasamtaka er með þeim hætti að mörg þeirra hefðu sennilega sómt sér vel sem fangaverðir í Gulaginu eða fangabúðum í öðrum alræðisríkjum. Það skeytir hvorki um skömm né heiður og forherðist bara. Og við erum orðin svo meðvirk í ofbeldinu að í stað þess að stíga niður fæti fjármögnum við þessi ofbeldissamtök meira og minna úr sameiginlegum sjóðum.