Auglýsing

Ólafur Ágúst skrifar frá klefa sínum á Sogni: „Hvað varð um arfleið Margrétar Frímannsdóttur?“

Ólafur Ágúst Hraundal situr af sér tíu ára dóm fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot og skrifar frá klefa sínum á sogni

Hvað varð um arfleið Margrétar Frímannsdóttur?

Ömurlegar staðreyndir birtast okkur reglulega á helstu fréttamiðlum landsins. Hvað er að gerast? Er kerfið að bregðast skjólstæðingum sínum? Er öll betrun og mannleg nálgun horfin innan veggja Litla-Hrauns? Starfsmenn standa ráðþrota. Er það vegna samskiptaleysis og sinnuleysis yfirstjórnar fangelsismála og ráðherra? Það er dapurlegt að verða vitni að öllum þeim harmleik sem á sér stað innan veggja fangelsana. Sjúkrabílar eru þar tíðir gestir vegna ofbeldis, ofneyslu og einstaklinga sem hafa gefist upp. Þetta er andleg eyðimörk þar sem menn eru að berjast við vindmyllur. Það er alveg sama hvar fæti er komið niður, það er ekkert að frétta nema algjör glundroði. Allt það góða starf sem búið var að byggja upp hefur verið strokað út með einu pennastriki sem skrifast á þá sem stýra fangelsinu. Það er ekki nóg að taka við góðu búi, það þarf líka að viðhalda því.

Meðferðargangur ekki talinn nauðsynlegur lengur?

Nú er búið að loka meðferðargangi á Litla-Hrauni og allt meðferðarstarf er farið út í veður og vind vegna áhugaleysis yfirstjórnar fangelsismála. Meðferðarfulltrúi var orðinn einn, einn að reyna að gera sitt besta en árangurinn var takmarkaður vegna þess að hann var búin að vera svo lengi, einn að berjast án meðbyrs yfirstjórnar fangelsisins. Því fer eins fer, lítill árangur í meðferðarstarfi og þá telja menn sig komna með góða ástæðu til að loka meðferðargangi! Það ættu að vera lágmarks mannréttindi að fangi geti verið í öruggu umhverfi þar sem engin neysla er! Það sem vantar inn í kerfið er heildstæð meðferðaráætlun fyrir hvern einstakling. Að hver einstaklingur sé metinn sem einstaklingur en ekki sem tala í excel skjali. Í lögum til fullnustu segir:
„Fangelsismálastofnun skal, í samvinnu við fanga, gera meðferðaráætlun fyrir fanga sé það talið nauðsynlegt að mati sérfræðinga Fangelsismálastofnunar. Áætlunina skal gera eins fljótt og kostur er eftir að afplánun hefst og endurskoða eftir atvikum meðan á afplánun stendur.”
Sé það talið nauðsynlegt að mati sérfræðinga Fangelsismálastofnunar! Eins og staðan er í dag er enginn með meðferðaráætlun. Hvar eru hinir hálærðu sérfræðingar stofnunninar? Hvað er meðferðaráætlun í þeirra huga?

Meðferðaráætlun hefur alveg gleymst hjá stofnuninni

Í skýrslu OPCAT, sem er samningur Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, kom fram að það væri bara einn fangi með meðferðaráætlun á Litla-Hrauni af 48 föngum. Einn fangi af 48. Hvernig má það vera? Heimsóknin var í nóvember 2022 en lögin er síðan 2016. Það er ekki undarlegt að maður fái á tilfinninguna að fyrir sumum starfsmönnum stofnunarinnar sé fangi bara launaseðill því þegar horft er til þessara litlu hluta sem koma að því að meta einstaklinga hvern og einn fyrir sig virðist meðferðaráætlun bara vera enn eitt skrautið hjá stofnuninni. Jafnvel bara þægileg innivinna hjá há lærða fína fólkinu.
Það þarf að hugsa kerfið upp á nýtt. Við þurfum að kveðja gamla tíma og spyrja okkur hvernig einstaklinga við viljum fá aftur út í samfélagið? Andfélagslega, reiða og vanvirka eða virka jákvæða og vel upplýsta?

Meðferð er ekki bara afeitrun. Hún kemur að áföllum, uppbyggingu, fræðslu og stuðningi. Hún kemur líka að andlegri heilsu og virkni. Það þarf að taka heildstæða stefnu þegar kemur að meðferð fanga. Meðferð er fjölþætt, eins og hver og einn einstaklingur. Hún einskorðast ekki bara við vímuefni. Það er til dæmis heilmikil áskorun fyrir fangann að stíga inn í óttann og horfast í augu við sjálfan sig. Það þarf að meta hvern einstakling fyrir sig. Einn á við vímuefnavanda að etja, annar áföll í æsku og hinn glímir við félagsfælni. Manneskjan er allavega og veganesti hvers og eins eftir því. Að vera með óunnið áfall hamlar lífsgæðum einstaklingsins.

Þurfum við að fara ræða miskabætur?

Er ríkið skaðabótaskylt vegna heilsubrests fanga, þeim andlegu og líkamlegu brestum sem þeir hafa orðið fyrir í ónýtu fangelsiskerfi og ónýtum fangelsum? Ef Litla-Hraun væri dýragaður þá væri MAST búið að loka vegna lélegs aðbúnaðar og illrar meðferðar dýra. Það eiga allir rétt á mannvirðingu sama af hvaða stöðu eða stétt þeir eru. Það er vond þróun og hættuleg að krefjast mannvirðingar til handa einum en taka þátt í að svipta hana öðrum. Fangi ætti að koma betri út í samfélagið en þegar hann fer inn í það. En eins og staðan er í dag er því öfugt farið. Það passa ekki allir inn í sama boxið, styrkleiki hvers og eins er persónubundinn. Fangelsin geyma fólk, manneskjur sem finna til og hafa tilfinningar.

Hvar er betrunin og endurhæfingin? Eru þessi fínu orð bara glyngur fangelsismálastofnunar til að skreyta sig með?

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing