Hugtakið „woke“ á uppruna sinn í því sem kalla má samfélagsleg vitund og réttlætisbaráttu tengdri henni. Orðið sjálft kemur af orðinu „awake“ (e. vakandi) og átti upprunalega við þá sem voru „vakandi“ fyrir félagslegu óréttlæti, þá sérstaklega kynþáttamisrétti. Hugtakið á sér rætur í bandarískum menningarheimi og varð áberandi í réttindabaráttu 20. aldarinnar og kom þá til dæmis fram í dægurlagatextum og ræðum í tengslum við borgaraleg réttindi.
Í dag er orðið „woke“ miklu meira notað yfir fólk sem virðist vera að prjóna yfir sig í frekar yfirborðskenndri réttlætisbaráttu. Þar sem markmiðið virðist oft á tíðum vera meira að skapa sér ímynd hinnar algóðu manneskju, án þess þó að leggja á sig neitt af þeirri vinnu sem það að vera góð manneskja krefst, frekar en að raunverulega vera að berjast fyrir hagsmunum jaðarsettra hópa. Slíkt fólk virðist hafa einstakt lag á því að þefa upp ímyndaðar mismunandi birtingamyndir félagslegs óréttlætis í öllum hornum samfélagsins.
Þessi lífstíll hefur á undanförnum árum augljóslega þróast út í mikið tískufyrirbrigði og á tímabili var okkur í raun seld sú hugmynd að enginn væri maður með mönnum nema viðkomandi gæfi sig út fyrir að vera virkan í félagslegri réttlætisbaráttu og héldi því statt og stöðugt fram að baráttunni fyrir kynjajafnrétti, kynrænu sjálfræði, og umhverfisvernd svo dæmi séu tekin, gæti aldrei nokkurn tíman verið lokið.
Það að vera „woke“ hefur semsagt þróast talsvert og þeir sem ekki hafa áttað sig á því virðast að mörgu leiti vera að stinga höfðinu í sandinn ef svo má að orði komast.
Hér eru 10 merki um að þú sért að ganga of langt í því að vera „woke“:
1. Þú túlkar allt sem brot á réttlæti
Þú ert alltaf á varðbergi gagnvart ójafnrétti og getur jafnvel túlkað saklausar athugasemdir eða aðstæður sem stórvægileg félagsleg vandamál.
2. Þú þolir enga aðra skoðun en þína
Þú getur ekki tekið því að aðrir hafi aðrar og ólíkar skoðanir án þess að líta á þá sem óupplýsta eða illa innrætta.
3. Þú ert stöðugt að afhjúpa aðra
Þú finnur þér endalaust tilefni til að „fordæma“ og vekja athygli á fólki á samfélagsmiðlum fyrir hegðun þeirra eða skoðanir, jafnvel þótt þau hafi kannski bara gert smávægileg mistök.
4. Þú býrð til vandamál þar sem þau eru ekki til staðar
Þú finnur stöðugt ástæðu til að gagnrýna hluti sem flestir líta á sem skaðlausa, jafnvel þegar tilgangurinn er góðviljaður.
5. Þú vilt ekki taka þátt í neinum húmor
Þú tekur öllu gríni og orðaleikjum alvarlega og lítur á það sem árás á ákveðna hópa eða gildi.
6. Þú fylgir „tískuaktívisma“
Þú tekur þátt í réttindabaráttum meira til að sýnast en til þess að raunverulega breyta eða hjálpa, t.d. með því að pósta vinsælum slagorðum á vegginn þinn en vilt ekki taka raunverulegan þátt.
7. Þú dæmir fortíðina of hart
Þú getur ekki litið á sögulega atburði eða fólk án þess að dæma þá með nútímagildum, án þess að taka samhengi atburðanna inn í myndina.
8. Þú aðhyllist svokallaða „hreinleikahreyfingu“
Þú gerir óhóflegar kröfur um að allir í þínum hring þurfi að vera fullkomnir í hugsun og hegðun, og útilokar þá sem ekki standast þín viðmið.
9. Þú ert stöðugt með sektarkennd eða yfirdrifna ábyrgðartilfinningu
Þú upplifir óþarfa sektarkennd vegna þeirra forréttinda sem þú gætir haft, og ert í stöðugri baráttu við að sanna þig sem „góðan“ einstakling.
10. Þér finnst þú alltaf vera í réttlætisbardaga
Þér finnst líf þitt snúast eingöngu um að berjast fyrir einhvern málstað, jafnvel þegar þú þarft sjálfur/sjálf á hvíld og jafnvægi að halda.
Að lokum: Það er mikilvægt að sýna samfélagslega vitund og stuðla að réttlæti, en líka að finna jafnvægi og gefa öðrum rými til að vaxa og læra. Umfram allt skiptir máli að vera opin/n fyrir samtali og sýna sanngirni og samkennd.