Liv er fædd árið 1969 og hlær létt þegar blaðamaður spyr hvort það sé húðvörum Bioeffect að þakka að hún líti ekki út fyrir að vera fædd þá.
„Þakka þér fyrir, vonandi. Ég lærði þetta húðrútínuhugtak þegar ég byrjaði hér en áður fyrr þreif ég fyrst og fremst vel á mér húðina og bar á mig eitthvert krem. Ég hafði þó notað EGF Serumið af og til frá því það kom á markað. Núna er ég meðvitaðri um mikilvægi þess að hugsa vel um húðina og það kemur auðvitað líka með aldrinum. Sjálf vil ég ekki hafa húðumhirðuna of flókna en ég skil alveg fólk sem vill fara í gegnum langa og flókna húðrútínu. Ég vil hafa þetta einfalt og fljótlegt og ég held að margir vilji það líka. Ég þríf húðina með góðum léttum hreinsi og svo nota ég EGF Serum-húðdropana og Hydrating-rakakremið saman. Ég set fyrst á mig Serumið og svo kremið. Þetta geri ég kvölds og morgna. Mér finnst líka gott að taka 30 daga meðferðina fjórum sinnum á ári, það er talað um að það sé gott að taka hana tvisvar til fjórum sinnum yfir árið, en ég tek hana þó ekki yfir sumartímann.“
Þetta er brot úr lengra viðtali sem finna má í heild sinni á vef Birtings.
Heldurðu ekki að það hafi orðið töluverð breyting á viðhorfi fólks gagnvart húðumhirðu frá því við vorum ungar? Það er auðvitað ekki svo langt síðan, en þó er komin ný kynslóð sem virðist passa betur upp á þetta?
„Jú, það er engin spurning. Hér áður fyrr var mögulega fyrst og fremst talað um mikilvægi þess að þrífa húðina vel kvölds og morgna og bera á hana eitthvert krem en nú hefur orðið mikil breyting þar á, áhugi fólks á öflugri og fyrirbyggjandi húðumhirðu hefur stóraukist. Mér finnast karlar líka orðnir mun meðvitaðri um mikilvægi góðrar húðumhirðu. Enda ætti húðin að skipta okkur máli. Við viljum hugsa vel um tennurnar, förum í klippingu og látum lita hárið og kaupum okkur falleg föt en höfum kannski látið húðumhirðuna sitja svolítið á hakanum. En þetta er að breytast. Ég hef reyndar sagt við yngri konurnar, að þótt við viljum sannarlega selja meira og selja öllum þá eigi þær að passa hvað þær bera á húðina og fara ekki fram úr sér. EGF Power-kremið er vinsælasta kremið okkar en það er líka mjög öflugt og ég myndi segja að það hentaði fyrir 40 ára og eldri. EGF Serum-ið hentar hins vegar fyrir húð sem er tuttugu plús og það sama á við um Hydrating-rakakremið. 30 daga meðferðin og EGF Power-kremið eru svo frekar miðuð að húð sem er farin að sýna sýnilega öldrun. Það er algjör óþarfi fyrir ungar konur með fallega húð að byrja of snemma að nota sterk efni. Það gefst nægur tími til þess með hækkandi aldri. Við erum líka með svo mismunandi húðgerðir og það er alveg rosalega persónubundið hvað hver og einn vill nota. Til dæmis er eiginlega ekkert okkar hér hjá Bioeffect með sömu húðrútínu.“
„Satt að segja fannst mér menntaskólinn erfiður þar sem sviðið sem þurfti að ráða við var svo breitt. Ég er til dæmis engin tungumálamanneskja á meðan mér fannst stærðfræði, bókhald og hagfræði skemmtileg fög, en mér fannst frábært í Háskólanum.“
Blaðamaður spyr hvort ekki hafi komið til tals að Bioeffect framleiði sólarvörn og Liv segir þau einmitt mikið spurð að því. „Við munum ekki gera það sjálf. Það er alveg rosalega strangt og flókið regluverk í kringum þróun sólarvarna því þetta þarf auðvitað að vera algjörlega 100% vörn, og við erum ekki sérfræðingar í því. Við sjáum frekar fyrir okkur að fara í samstarf við einhverja sem eru með bestu sólarvarnirnar. En við hvetjum viðskiptavini okkar eindregið til að nota sólarvörn, enda er það auðvitað algjörlega nauðsynlegt og mjög mikilvægt.“
Liv segir það algjöra sérstöðu Bioeffect að EGF, virka efnið í húðvörulínunni, sé þróað og framleitt af ORF Líftækni í gróðurhúsi fyrirtækisins í Grindavík. „Við ræktum upp fræ byggplöntunnar og plönturnar fara svo í gróðurhúsið. Síðan tökum við uppskeruna úr Grindavík hingað í hús og vinnum þetta hér þar sem við erum með okkar eigin rannsóknar- og þróunarteymi í húðvörum. Síðan fer öll blöndun fram hér á Íslandi og áfram í átöppun og pökkun. Svo sendum við vörurnar á sölustaði hér heima og út um allan heim. Í dag eru Bioeffect-vörurnar seldar á um 27 mörkuðum. Það er algjör sérstaða okkar að vera með alíslenskar húðvörur, því það er ekki aðeins þróun og framleiðsla sem fer fram hér heldur notum við líka íslenska vatnið í vörurnar okkar. Við erum mjög stolt af okkar sérstöðu, að geta haft þetta allt hér heima. Bioeffect-húðvörulínan tilheyrir svokölluðum green-, clean- og pure beauty-flokki; þ.e. það eru grænar og hreinar húðvörur með fá en virk innihaldsefni. Þetta er í síauknum mæli fyrsta val neytenda um allan heim þegar kemur að húðvörum, enda eru neytendur upplýstari í dag en þeir hafa nokkurn tíma verið.“
„Ég geri lítið af öllu en ekki mikið af neinu, er ágæt í öllu en engin afreksmanneskja þegar kemur að íþróttum“ segir hún hlæjandi. „Ég hef rosalega gaman af útivist og reyni að vera eins mikið í útisporti og ég get.“
„Hef oft sagt að ég hafi ekki átt nein áhugamál fyrir fertugt“
Starf forstjóra krefst án efa mikillar vinnu og tíma. Blaðamaður spyr hvort Liv hafi mikinn tíma aflögu fyrir áhugamál eða hvort hún sé alltaf í vinnunni. „Þetta breytist auðvitað með árunum. Nú er ég ekki lengur með lítil börn og þá léttir töluvert á heimilinu og því sem að því snýr. Hver kafli í lífinu á sinn tíma, þegar maður var yngri vann maður mikið og sinnti fjölskyldunni og hafði kannski ekki mikinn tíma í annað. Eftir því sem maður eldist og börnin stækka þá breytast hlutirnir svolítið. Þannig að í dag hef ég allt í einu meiri tíma en ég hafði áður í annað en vinnu. Annars hef ég alltaf haft rosalega gaman af því að vinna. Ég sæki í mikla vinnu, ég fæ orku og gleði við það að takast á við ný og krefjandi verkefni. Mér finnst það svo mikil forréttindi að vera í skemmtilegri og krefjandi vinnu.“
Texti: Guðrún Óla Jónsdóttir
Myndir: Hákon Davíð Björnsson