Auglýsing

Ellefu ára synd loksins komin fram í sviðsljósið

Síðustu vikur hefur verið vinsælt að deila játningum og syndum sínum á Twitter, í ljósi þess að framtíð miðilsins er óljós, svo minnst sé sagt. Starfsfólk tölvuleikjaiðnaðarins er þar á meðal, en þau hafa deilt nokkrum sprenghlægilegum „syndum“ úr vinsælum leikjum. 

Einn af vinsælustu leikjum síðustu ára er án efa Skyrim, fimmti leikurinn í Elder Scrolls seríunni. Í leiknum stýrir þú Drekabornum sem flakkar um Skyrim og gerir alls kyns verkefni fyrir alls kyns fólk og stofnanir.

Þar á meðal Myrka Bræðralagið, launmorðingjaregla sem svífist einskis.

Emil Pagliarulo hefur verið hönnunarleikstjóri hjá Bethesda, framleiðslufyrirtæki Skyrim, í fleiri ár. Hann fann sig knúinn til að játa eina synd varðandi leikinn.

„Ég er með eina „bellibragðasögu“ varðandi Skyrim,“ skrifar hann á Twitter. „Í Myrka Bræðralaginu kemur tímapunktur þarf sem þú þarft að fela þig í kistu Næturmóðurinnar. Þú stígur inn, kistan lokast og allt verður dimmt. Svo sérðu upplýst hræ Næturmóðurinnar fyrir framan þig.“

„Nema … þetta var allt í plati.“

Emil segir að atriðið hafi verið teiknað nokkuð seint í ferlinu og teiknunardeildin hafði ekki tíma til að búa til almennilega lausn. Stærð kistunnar og stærð aðalkaraktersins pössuðu ekki saman svo hann þurfti að hugsa út fyrir kassann.

„Ég læsi sjónarhornið í fyrstu-persónu, slekk á öllum stýringum, slekk öll ljós á svæðinu og spilaði svo hljóð kistunnar að lokast fyrir aftan þig. Þú stendur samt bara á sama stað, alveg upp við Næturmóðurina. Alls ekki lokaður og læstur inni í líkkistu.“

Fleiri hönnuðir og framleiðendur hafa birt sínar eigin játningar sem sýna uppáhalds leikina okkar í allt öðru ljósi.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing