Brotist var inn í húsnæði björgunarsveitarinnar Bróðurhönd, undir Eyjafjöllum, í nótt og þaðan stolið flugeldum fyrir um eina milljón króna.
„Við erum náttúrulega björgunarsveit af minnsta skalanum og erum fámenn hérna austur í sveit þannig að sem betur fer liggjum við nú ekki með milljóna krónu birgðir af flugeldum,“ segir Einar Viðar Einarsson, formaður Bróðurhandar, í samtali við Fréttablaðið og bætir við:
„Það sem var enn betra var að við höfðum okkar eina flugeldasöludag í gær þannig að það takmarkar peningalega tjónið fyrir okkur. Það hefur verið farið inn í húsið á milli 22:30 – 09:30 í nótt og það virðist bara hafa verið stolið flugeldum. Öll önnur verðmæti virðast hafa verið látin vera. Söluverðmæti flugeldanna hafa verið einhvers staðar upp undir milljón og eina tjónið sem varð er útihurðin sem þarf að endurnýja. Við erum búnir að tilkynna þetta og lögreglan er komin í rannsókn málsins.“