Þrátt fyrir að selja töluvert meira af Playstation 5 þá hefur Sony ekki verið talið sterkur samkeppnisaðili við Xbox Game Pass þjónustu Microsoft. Fyrir áskriftarfé er þar hægt að spila flesta útgefna Xbox leiki frá upphafi, eitthvað sem Playstation spilarar hafa beðið um árum saman. Nú verður það möguleiki, ef marka má væntanlega breytingar Sony á áskriftarfyrirkomulagi sínu.
Í dag er áskriftarþjónustan kölluð Playstation Plus og kostar 60 dollara fyrir árið. Þar gefst spilurum kostur á að spila nettengda leiki, kaupa ýmsa leiki á afslætti og fá allt að fjóra leiki fría á mánuði.
Með breytingunum verður áfram hægt að halda þessari áskrift gangandi, en tveir dýrari kostir verða í boði þar sem möguleikarnir verða fleiri.
Lítið um „afturábakspilun“
Þegar Playstation 4 tölvan kom út árið 2013 var Sony harðlega gagnrýnt fyrir að leikir frá fyrri tölvu væru ekki spilanlegir á hinni nýju. Þetta stigmagnaðist enn þegar magnið af nýjum PS4 leikjum var ekki eins mikið og búist var við. Samtímatölva Microsoft, Xbox One, gat spilað flesta leiki frá fyrri tölvu, Xbox 360.
Sony hefur því lengi verið gagnrýnt fyrir að veita ekki þjónustu og stuðning til þess að leyfa spilurum að njóta eldri leikja á nýju tölvunum.
Playstation 5 og Xbox Series X komu út haustið 2020. Xbox er talið hafa komið talsvert betur úr ævintýrinu, þrátt fyrir bágar sölur beggja tölva, sökum vöruskorts og gróðabraskara. Áskriftarþjónusta þeirra leyfir spilun á leikjum allt til fyrstu Xbox tölvunnar.
Þrír flokkar í boði
Fyrsti flokkurinn fær heitið Playstation Plus Essential og verður óbreyttur að öllu. Spilarar fá áfram netspilun, fría leiki á mánuði, pláss í skýinu fyrir vistaða leiki og afslætti í vefverslun. Verðið helst einnig það sama, 60 dollarar, eða um 7.700 krónur fyrir árið og 10 dollarar, eða um 1.200 krónur ef maður vill borga mánaðarlega.
Næsti flokkur mun heita Playstation Plus Extra. Þar bætast við um 400 leikir, frá PS4 og PS5 við safnið þitt. Þetta verður aðgengilegt fyrir 100 dollara á ári, rétt tæplega 13.000 krónur. Skyldi spilarinn vilja halda sig við mánaðarlegar greiðslur þá þyngist róðurinn aðeins, 15 dollarar eða í kringum 2.000 krónur.
Síðasti flokkurinn er sá sem við höfum öll beðið eftir. Playstation Plus Premium býður upp á allt þetta nema til viðbótar koma í kringum 340 leikir frá PS3, PS2 og PSP. Þessi þjónusta hefur hingað til verið í boði í gegnum þjónustuna Playstation Now, en það hefur verið kostnaður til viðbótar við Playstation Plus, og einungis í boði í nítján löndum. Með þessari breytingu sameinast þjónusturnar og verða í boði allstaðar.
Spilarar geta notið þessarar þjónustu fyrir 120 dollara á ári, um 15.000 krónur, tvöfalt dýrara en núverandi þjónusta. Hægt er að borga á þriggja mánaða fresti, en þá borgar maður 50 dollara.
Ýmsar spurningar vakna
Samkvæmt fréttatilkynningu Sony mun þjónustan fara í gang í júní. Það verður áhugavert að sjá hvernig fyrirtækið hyggst rukka spilara sem vilja hoppa beint í Premium, en það þekkist vel að í kringum 11. nóvember, betur þekktur sem singles day, var hægt að kaupa áskriftina á góðum afslætti. Verða spilarar rukkaðir strax um fullt verð eða verður komið til móts við fólk?
Hvaða leikir verða í boði er svo önnur spurning. Nú þegar hafa leikir verið í boði í gegnum Playstation Now og er verðið á Premium jafn dýrt og að borga fyrir bæði Plus áskrift og Now. Helsti munurinn er sá að Now verður aðgengilegt stærri hópi spilara, í stað einungis tuttugu landa. Það er von að leikjafjöldinn stækki aðeins, annars mun þetta einfaldlega skrifast upp sem tilraun Sony til að einfalda bókhaldið hjá sér.