Auglýsing

Hinsta gjöf Stefáns Karls -„Lífið er núna“

Stefán Karl var einn af fremstu leikurum þjóðarinnar og öðlaðist hann einnig heimsfrægð sem Glanni glæpur í sjónvarpsþáttunum um Latabæ og Trölla í samnefndum söngleik.

Stefán lést 21. ágúst 2018 aðeins 43 ára að aldri, eftir langa og erfiða baráttu við krabbamein en hann var mjög opinskár um veikindi sín, bæði á samfélagsmiðlum og við fjölmiðla. Í lok árs 2017 var Stefán Karl byrjaður að vinna að bók um leikferil sinn í samstarfi við vin sinn og samstarfsfélaga, Mark Valenti, sem var aðalhandritahöfundur Latabæjar.

Bókin, Lífið er núna, eða Life is now, kom út á Þorláksmessu og fæst meðal annars á Amazon. Slagorðið „Lífið er núna“ er slagorð Krafts, stuðningsfélags fyrir ungt fólk á aldrinum 8-40 ára sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur þeirra.

„Ég vona bara að ég geti deilt reynslu minni með jákvæðum hætti, því lífið er núna,“ sagði Stefán Karl í viðtali við Morgunblaðið þar sem hann ræddi meðal annars um bókina og sagði hann bókina bland af ferða- og starfssögu, en ekki hefðbundna ævisögu.

„Veikindi mín hafa ratað í öll helstu slúðurblöð heims og sökum þessa vita mjög margir hver maðurinn á bak við sminkið og grímuna er, sem gefur mér tækifæri til að ná til fólks með jákvæð skilaboð og auðvitað vil ég nýta mér það. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að við eigum að láta gott af okkur leiða. Við eigum ekki að hylma yfir mistök okkar og veikleika heldur læra af þeim og nýta til góðs.“ segir Stefán í viðtalinu.

„Lífið er núna lýsir lífshlaupi Stefáns Karls frá fyrstu dögum hans sem ungur vonglaður leikari, til tíma hans sem heimsþekkt ástsæl stórstjarna. Á hátindi ferils síns greindist Stefán Karl með ólæknandi krabbamein, en á erfiðasta tíma var hann umvafinn kveðjum frá aðdáendum um heim allan, kveðjum sem innihéldu von, bænir og styrki,“ segir á kápu bókarinnar.

„Lífið er núna segir frá hugleiðingum Stefáns Karls um hvað skipti hann mestu máli eftir því sem dagar hans urðu færri: ást hans á fjölskyldu hans, arfleifð hans sem leikari og skilingur á að dagurinn í dag er það eina sem er öruggt. Fortíðin er liðin, framtíðin býður, en lífinu – með sigrum. þreytu, hressleika og áskorunum – verður aðeins notið til hins ýtrasta í núinu. Hinsta gjöf Stefáns Karls til okkar er áminning um að Lífið er núna.“

Bókina má panta hér.

Þetta kom fram á vef Mannlífs.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing