Auglýsing

Ingó gagnrýnir Iceland Airwaves fyrir að hafna Jóni Jónssyni: „Fyrir hverja er hátíðin?“

Array

Tónlistarmaðurinn Ingólfur Þórarinsson, Ingó Veðurguð, furðar sig á því að Iceland Airwaves hafi hafnað umsókn kollega hans, Jóns Jónssonar, um að koma fram á hátíðinni. Ingó spyr fyrir hverja hátíðin er þegar einn vinsælasti tónlistarmaður landsins fær neitun.

Nútíminn hafði samband við Jón sem staðfesti að umsókn hans hafi verið hafnað. Hann segist þó alls ekki vera bitur yfir því en hann kom fram á veitingastaðnum Hard Rock um helgina en tónleikarnir voru ekki hluti af opinberri dagskrá hátíðarinnar.

Í færslu á Facebook-síðu sinni segir Ingó að ef hátíðin eigi að vera fyrir alla þá væri væntanlega frábært að popptónlistarmaður í hæsta klassa eins og Jón kæmi  þar fram. „Og gæfi þannig fleirum færi á að njóta. Hann fengi að auki sjálfur að flytja tónlist sína fyrir erlenda gesti,“ segir Ingó.

En nei, því miður er ekki áhugi á að njóta krafta hans á þessari hátíð enda Jón væntanlega ekki nógu hip og kúl fyrir skipuleggjendur. Ég veit ekki hver ástæðan ætti að vera önnur.

Ingó bætir við að allir vinsældalistar tali sínu máli um tónlist Jóns. „Það þykir greinilega vera mikilvægara, þegar þú vilt kynna tónlist þína á Iceland Airwaves, að þekkja rétta fólkið eða vera í klíkunni en að hafa átt fjölmörg vinsælustu lög landsins síðustu 4-5 árin.“

Nútíminn hafði samband við aðstandendur Iceland Airwaves-hátíðarinnar og þeir segjast ekki ætla að ræða einstakar umsóknir eða ástæður fyrir neitun.

„Við vorum að klára eina bestu Iceland Airwaves hátíð í manna minnum. Við ætlum ekki að fara að munnhöggvast við Ingó Veðurguð. Honum er frjálst að hafa sínar skoðanir,“ segir Grímur Atlason, framkvæmdastjóri hátíðarinnar.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing