Sprelligosarnir þeir Keith, Eugene, Ned og Zack mynda saman vlog-teymið The Try Guys sem gerður garðinn fyrst frægan á vefsíðunni Buzzfeed fyrir nokkrum árum. Strákarnir eru þekktir fyrir, eins og nafnið gefur til kynna, að prófa ýmsa hluti og segja frá þeim í myndböndum sínum.
Í nýjustu myndbandaseríu fjórmenninganna reyna þeir að aka bifreið undir áhrifum ýmissa efna og óæskilegrar hegðunar, með sláandi afleiðingum. Myndböndin í seríunni eru fjögur talsins og þar aka þeir undir áhrifum áfengis og kannabisefna, verulega svefnvana og á meðan þeir senda smáskilaboð úr símum sínum.
Myndböndin eru vægast sagt ótrúleg áhorfs og hafa þau vakið mikla athygli á veraldarvefnum. Vinsælasta myndbandið er það þar sem strákarnir aka undir áhrifum kannabisefna en mikil umræða hefur skapast um lögmæti þess í Bandaríkjunum og hvernig sé best að mæla ökumenn undir áhrifum kannabisefna, sérstaklega eftir lögleiðingu efnanna í mörgum ríkjum landsins.
Í myndböndunum er rætt við lækni og lögreglumann sem koma með áhugaverð innskot frá sjónarhorni fagmanna og hefur myndbandið þar sem strákarnir aka bílnum eftir að hafa haldið sér vakandi í 36 klukkustundir sláandi að sjá, sér í lagi þar sem ekki telst ólöglegt að aka bifreið svefnvana.
“Mér leið eins og ég væri undir áhrifum áfengis, meira en þegar við vorum að keyra fullir” segir Zack í myndbandinu. “Það sem við gerðum var samt fullkomlega löglegt, ég hefði getað keyrt heim eftir upptökuna á myndbandinu og hugsað með mér…að, já…ég er ekkert að brjóta lögin!” bætir hann við en það er greinilegt að sprelligosarnir gerðu sér engan veginn grein fyrir því hversu hættulegt, þó löglegt sé, að keyra verulega svefnvana.
Myndbandið má sjá hér að neðan en hægt að er að horfa á alla seríuna á Youtube-rás fjórmenninganna, undir nafninu The Try Guys.