Matreiðsluþættirnir SOÐ hafa vakið talsverða athygli á Facebook en í þáttunum eldar Kristinn Guðmundsson fjölbreyttar kræsingar á sinn einstaka og óhefðbundna hátt. Nú hyggst Kristinn þakka fyrir góðar móttökur með því að halda sérstakt SOÐboð sem verður í beinni útsendingu á Facebook næsta sólarhringinn. Horfðu á útsendinguna hér fyrir neðan.
Sjá einnig: Heldur matarboð í beinni útsendingu á internetinu í sólarhring
Kristinn ætlar meðal annars að elda heilt lamb með sous vide-aðferðinni í heitum potti. Hann segir í samtali við Nútímann að hugmyndin hafi komið frá nokkrum góðum vinum sínum sem eru alltaf til í svona vitleysu. „Og annar enskur vinur minn er með hægvarpið í Noregi á heilanum og þegar tveir svona hópar koma saman þá verður vonandi eitthvað gott til,“ segir Kristinn.
„Þannig varð hugmyndin til að hafa þetta allt saman í beinni á Facebook. En svo á endanum er þetta allt gert fyrir læk sem við erum svo sjúk í, einhvern til að klappa manni á bakið. En að öllu gríni slepptu þá langaði mig bara að þakka fyrir móttökurnar, þær hafa verið rosa skemmtilegar.“