Átta listakonur, dansarar, sviðshöfundar og myndlistakonur opna sýningu í menningarrýminu Midpunkt föstudaginn næstkomandi klukkan 6. Þær eru Anna Kolfinna Kuran, Eilíf Ragnheiður, Elísabet Birta Sveinsdóttir, Gígja Jónsdóttir, Margrét Bjarnadóttir, Saga Sigurdardóttir, Sigríður Soffía Níelsdóttir og Sóley Frostadóttir.
Í sýningunni koma saman ólíkir listamenn sem eiga það sameiginlegt að vinna með líkamann og nýta efnivið sinn á kóreografískan hátt. Listamenn sýningarinnar eiga eiga sameiginlega sögu í danshefð og kóreografíu en eru nú að nýta þá aðferðafræði við sköpun á myndverkum frekar en sviðsverkum.
Myndlistin og kóreógrafían hafa oft skarast, síðasta kvöldmáltíð Da Vinci er til dæmis vandlega útfærð kóreógrafía þar sem listamaðurinn veitir hverju smáatriði athygli, bendingum handa, höfuðhnykkjum og öðrum líkamsstellingum. Málarar sóttust og sækjast enn eftir að fanga hreyfinguna. Að sama skapi er löng hefð innan danslistarinnar fyrir því að vinna með myndir, frá því ballettinn kom fyrst á sjónarsviðið hefur hann sótt innblástur í myndlistina og reynt að líkja eftir líkömum úr heimum málverka. Á tuttugustu öldinni má segja að mörkin hafi alveg máðst út, danslist náð inn í gallerí og myndlist á svið, og í verkum þessara átta listakvenna eru þau landamæri jafnvel enn ógreinilegri, þar sem þær vinna með líkama, hreyfingar og bergmál þeirra í vídjóum, höggmyndum, innsetningum, gjörningum og alls kyns tvívíðum verkum.
Í sýningunni má sjá listakonurnar kljást við líkamann ekki bara sem uppsprettu listar heldur sem pólitískt afl, jafnvel pólitíska yfirlýsingu. Þær endurskoða kyngervi og hugmyndir okkar um kven og karl-líkama. Markmið sýningarinnar er að varpa ljósi á vinnuaðferðir kóreografíunnar. Skipulagningu og samvinnu sem skapa myndræna sýningu með kóreografískri uppbyggingu. Gefa listamönnunum tækifæri til að koma saman, mynda samtal og sýna verk sín í samhengi við aðra listamenn. Upphefja kóreografíska nálgun og kynna fyrir áhorfendum fyrir nýjum listamönnum, nýjum aðferðafræðum og breyttri uppsetningu sýninga.
Opna fyrir einlægni, opinberun og viðkvæmni og koma á fót samtali milli danslistar og myndlistar sem opnar á samruna, sköpun og aðferðafræði fyrir komandi kynslóðir listamanna.
Sýningin „Með líkamann að vopni” leyfir aðferðafræði danshöfundarins að lifa og sviðsetja líkamann inn í hvíta kassanum. Leikinn, spunann og samvinnu verður að leiðarljósi og ekki sleppa takinu af ferlinu þó að sýningin sé full mótuð. Bjóða líkömum listamannanna að fremja kóreografíska gjörninga á þeim tíma sem sýningin stendur og hafa rýmið lifandi og spennandi fyrir áhorfendum. Leyfa sýningargestum að kynnast hversu fjölbreytileg og víðtæk kóreógrafía er. Rannsaka dansinn milli listamannsins / listaverksins, áhorfendans / ferlisins, framtíðar / sögunnar þar sem líkaminn er efniviðurinn, sköpunin og sýningin.