Garðar Viðarsson, betur þekktur sem Gæi, lagði í gær land undir fót og ók alla leið á Snæfellsnes til að kíkja í heimsókn á frægan haförn sem kollegi hans, Snorri Rafnsson fangaði fyrir helgi. Gæi segir að örninn hafa verið ótrúlega rólegur og gæfur enda í góðum höndum.
Örninn sem Snorri fangaði hefur fengið töluverða umfjöllun í fjölmiðlum en Snorri náði honum rétt fyrir utan Ólafsvík. Hann hafði fylgst með honum í nokkrar vikur og sá að hann var greinilega eitthvað veikur og vildi hann koma honum til hjálpar. Hann sýndi frá öllu ferlinu á Snapchat.
Hann hefur nú verið í góðu yfirlæti hjá Snorra í nokkra daga meðan hann safnar kröftum og ákvað Gæi að renna vestur og kíkja á gripinn.
„Þetta var algjörlega geggjaður dagur og það var tekið höfðinglega á móti okkur, fengum önd og kjötsúpu og kíktum á minkaveiðar. Svo heilsuðum við að sjálfsögðu uppá örninn,“ segir Gæi í samtali við Nútímann en hann viðurkennir að hafa verið örlítið hræddur við örninn.
Mér stóð ekki alveg á sama en ég hafði séð Snorra og pabba hans snerta hann á Snapchat þannig að ég varð að prófa
Þeir sem hafa áhuga á að fylgjast með Snorra og erninum á Snapchat geta bætt honum við með því að leita að nafninu: Vargurinn.