Auglýsing

Telja að Birna hafi verið í bílnum þegar honum var ekið inn hafnarsvæðið kl. 6.10

Lögreglan telur að Birna Brjánsdóttir hafi verið í rauða Kia Rio bílaleigubílnum þegar honum ekið var inn á hafnarsvæðið við Hafnarfjarðarhöfn kl. 6.10 laugardaginn 14. janúar.

Þetta er haft eftir Grími Grímssyni yfirlögregluþjóni í frétt á Vísi.

Grímur vill ekki fara út í það hvort Birna sjáist inni í bílnum á einhverjum myndavélum en bendir þó á að hann hafi ítrekað sagt að hún hafi síðast sést í myndavél við Laugaveg 21 kl. 5.25 aðfaranótt laugardags.

Lögreglan reynir nú að kortleggja ferðir bílsins laugardagsmorguninn 14. janúar milli klukkan 7 og 11:30. Bílnum var ekið út af hafnarsvæðinu kl. 7.

Fréttablaðið greindi frá því í morgun að lögregla hefði lagt hald á úlpu skipverja um borð í togaranum Polar Nanoq, eins þeirra þriggja sem handteknir í tengslum við hvarf Birnu.

Blaðið segist hafa heimildir fyrir því að maðurinn hafi gleymt úlpunni í bílaleigubílnum sem skipsfélagi hans hafði á leigu.

Það vakti athygli hans á laugardeginum, 14. janúar, að búið var að setja úlpuna í þvott. Hann velti því þó ekki meira fyrir sér.

Þegar skipinu var snúið við á þriðjudaginn í síðustu viku fór hann að velta málinu betur fyrir sér. Hann gaf sig fram við sérsveitarmenn Ríkislögreglustjóra sem tóku yfir stjórn skipsins og handtóku tvo skipverja.

Maðurinn var handtekinn í kjölfarið en honum var sleppt að lokinni yfirheyrslu hjá lögreglu. Búið er að útiloka að hann tengist andláti Birnu Brjánsdóttur.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing