Þormóður Eiríksson er nafn sem ekki margir Íslendingar þekkja. En þrátt fyrir það er Þormóður einn af vinsælustu tónlistarmönnum Íslands um þessar mundir. Þormóður er pródúsent og vinnur og semur tónlist með mörgum af heitustu popptónlistarmönnum á Íslandi. Hann á heiðurinn af nokkrum af stærstu smellunum sem hljómað hafa í útvörpum íslendinga undanfarin ár.
Þormóður var einungis 20 ára gamall þegar Jói P og Króli römbuðu inn í litla stúdíóið hans á Ísafirði fyrir þremur árum síðan.
„Þeir komu sko bara inn einmitt á meðan ég var að leggja niður taktinn og var bara nýbyrjaður á honum. Svo byrja þeir bara að freestyle-a vers yfir taktinn koll af kolli og eftir um klukkutíma var þetta bara komið og lagið nánast tilbúið,“ segir Þormóður.
Samstarf þeirra hefur verið gjöfult en það leiddi meðan annars af sér lagið B O B A sem tryllti landann árið 2017.
„Ég fæ bara gæsahúð að hugsa til baka. Þetta var ógeðslega gaman og ég man að ég var að labba í vinnuna þegar myndbandið kom út og ég horfði á það á leiðinni í vinnuna. Svo þegar ég var mættur í vinnuna máttum við ekkert vera með símann og ég setti hann bara í vasann. Svo byrjaði hann bara að titra og titra.“
Síðan þá hefur Þormóður haft nóg að gera og í dag gerir hann ekkert annað en að semja og taka upp tónlist.
„Mamma hefur alltaf sagt mér að hafa plan b með tónlistinni. En svo þegar þetta lag kom út sagði hún við mig, hvað ert þú að gera í skóla? farðu suður og ekki vera sóa tímanum þínum hér,“ segir Þormóður.
Frosti heimsótti Þormóð í þættinum Ísland í dag og að neðan má sjá innslagið í heild sinni en þar kom meðal annars fram að hlustað hefur verið á lög eftir Þormóð yfir 36 milljón sinnum á Spotify.