Þýskur farandssirkus, Circus Roncalli sem hefur verið starfrækur frá árinu 1976 hefur fundið nýstárlega og skemmtilega leið hjá því að sýna lifandi dýr á sýningum sínum. Sirkusskemmtanir, sem voru geysivinsælar á liðinni öld hafa staðið á höltum fæti síðustu ár vegna ásakana um óásættanleg vinnuskilyrði, dýraníð og ómannúðlega meðferð á minnihlutahópum, fötluðu fólki og fjöllistafólki.
Circus Roncalli hefur nú alfarið sagt skilið við að sýna lifandi dýr á sýningum sínum og notast nú við svokallaðar heilmyndir eða „holograms“ til að sýna stórfengleg og furðuleg dýr á mannúðlegan hátt. Eins og sést í myndbandinu hér að neðan er notaður 360°skjár til þess að varpa upp heilmyndunum við undran gestanna.
Skjárinn tryggir að allir sýningargestir hafa fullkomið sjónarhorn á skemmtunina og missa því ekki af neinu. Með þessum hætti verða sirkussýningarnar einnig meira töfrandi og súrrealískar, eins og sjá má í brellunum í myndbandinu. Við sirkusinn starfa einnig hefðbundnari fjöllistamenn, svo sem trúðar, fimleikafólk og sjónlistamenn. Circus Roncalli hefur hlotið mikið lof erlendis fyrir heilmyndanotkun sína.
Sirkusinn er á ferð um Þýskaland um þessar mundir en með vaxandi vinsældum er aðeins hægt að bíða og vona að sirkusinn mannúðlegi láti sjá sig hér heima.