Í ljósi viðskiptastríðs Bandaríkjanna við Kína og vaxandi spennu þeirra við mörg Evrópulönd, þykir viðskiptasamningur við Ísland nú fýsilegur kostur. Stjórn Donalds Trump Bandaríkjaforseta er sögð hafa áhuga á slíkum samningi við Ísland og er málið sagt hafa verið rætt á hádegisverðarfundi öldungadeildarþingmanna Repúblikanaflokksins og hlotið góðar undirtektir.
Samkvæmt umfjöllun málsins á Axios myndi slíkur samningur hafa lítið sem ekkert gildi viðskiptalega séð fyrir Bandaríkin heldur er það staðsetning Íslands sem skiptir öllu máli. Trump mun hafa verið ráðlagt af öryggisráðgjöfum sínum að fjárfesta á norðurslóðum og þar sem að Grænland var ekki falt, þykir fríverslunarsamningur við Ísland skynsamlegt skref fyrir Bandaríkin af hernaðarlegum ástæðum.
„Þetta er þjóðaröryggismál, að gera svona samninga og fá þá til að vinna með okkur en ekki Kínverjum eða Rússum,“ hefur Axios eftir ónefndum embættismanni. Mbl greindi frá á vef sínum.