Leiðir þeirra Jóhönnu Sigurðardóttur og Geirs H. Haarde lágu saman á ný í vikunni. Í þetta sinn í stuðningshópi Höllu Hrundar Logadóttur, forsetaframbjóðanda.
Stuðningur Jóhönnu við Höllu Hrund kann þó að reynast þeirri síðurnefndu dýrkeyptur. Jóhanna hefur nefnilega sögulega átt í stökustu vandræðum með að velja sér hesta í forsetakapphlaupum.
Árið 1968 studdi Jóhanna Gunnar Thoroddsen, en tapaði fyrir Kristjáni Eldjárn.
Árið 1980 studdi Jóhanna forsetaframboð Alberts Guðmundssonar sem var þá borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Albert tapaði það árið fyrir Vigdísi Finnbogadóttur, sem varð þá fyrst kvenna kjörinn þjóðhöfðingi, þrátt fyrir tilraunir Jóhönnu til annars.
Árið 1996 studdi Jóhanna Guðrúnu Agnarsdóttur gegn Ólafi Ragnari.
Árið 2012 gerði Jóhanna aðra atlögu að Ólafi. Skemmst er frá því að segja, að Þóra Arnórsdóttir varð aldrei forseti.
Nú árið 2024 styður, sem fyrr sagði, Jóhanna framboð Höllu Hrundar.
Halla Hrund rauk upp í skoðanakönnunum en Halla hrundi skömmu síðar og tengja margir það við slappa frammistöðu í kappræðum. Stuðningsyfirlýsing Jóhönnu kom því eins og þruma úr heiðskíru lofti og kann að hafa hrist upp í hlutunum. Henni hefur hið minnsta tekist að bremsa af frjálst fall í skoðanakönnunum. Konurnar þrjár eru nú efstar og Baldur Þórhallsson örfáum prósentum á eftir.
Það má því með sanni segja að kosningarnar nú eru með þeim mest spennandi svo lengi sem elstu menn muna. Væntanlega er þó meira undir hjá Jóhönnu en öðrum kjósendum. Mun henni takast að brjóta 56 ára óslitna sögu af röngum hestum og brostnum vonum?