Fimm konur hafa verið drepnar í ár, þar af tvær stúlkur. Samkvæmt frétt á Rúv.is segir deildarstjóri gagnavísindasviðs ríkislögreglustjóra að árið í ár hafi verið átakanlegt og sverti tölfræðina allverulega. Jafnmörg stúlknamorð hafa verið framin hér á landi það sem af er þessu ári og í 25 ár þar á undan.
Í samantekt gagnavísindadeildar ríkislögreglustjóra um fjölda látinna kvenna og stúlkna vegna manndrápa á Íslandi frá 1999 til og með 2023 sýnir að 21 kona hefur látist vegna manndráps á tímabilinu, þar af tvær stúlkur undir 15 ára aldri. Yfir sama tímabil hafa 33 karlar látist vegna manndrápa.
Í þessari samantekt kemur líka í ljós að engar konur/stúlkur voru drepnar hér á landi á árunum 2005-2009, en árin 1999-2004 voru 7 konur/stúlkur myrtar, svo þetta virðist vera að gerast í sveiflum.
Kvenna- og stúlknamorð hér á landi eru yfirleitt af hendi maka, fyrrum maka eða einhvers sem tengist þeirri myrtu nánum fjölskyldu- eða vinaböndum. Í þessum gögnum ríkislögreglustjóra er ekki að finna tilvik þar sem þolandi hefur lifað af lífshættulega árás og hlotið varanlegan, andlegan og líkamlegan skaða af.