Frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrsti kjörni kvenforseti heims og ein áhrifamesta kona Íslands fyrr og síðar, hefur vakið athygli á ný eftir sýningu á vinsælum þáttum um ævi hennar og störf.
Þættirnir, sem heita einfaldlega Vigdís, draga fram mikilvægi hennar í baráttunni fyrir jafnrétti, og hafa fengið landsmenn til að ræða arfleifð hennar og sjónarmið.
Vegna þessarar nýfengnu athygli hefur Nútíminn rifjað upp viðhorf Vigdísar til jafnréttisbaráttunnar og varnaðarorð hennar gegn öfghyggju en líklega er meiri þörf á slíkum skilaboðum í dag en oftast áður.
Í viðtali við tímaritið Monitor árið 2012 ræddi Vigdís meðal annars um jafnrétti kynjanna og lýsti því yfir að hún sé bæði kvenréttindakona og karlréttindakona.
„Ég er mikil kvenréttindakona en ég er líka karlréttindakona og ég er að verða meiri og meiri karlréttindakona því ég vil hafa jafnvægi í þessu í þjóðfélaginu,“ sagði Vigdís.
Hún lagði áherslu á að hvorugt kynið eigi að þurfa að upplifa kúgun eða óréttlæti og að hún vilji tryggja jafnvægi í samfélaginu.
Gullni meðalvegurinn lykillinn að árangri
Vigdís undirstrikaði mikilvægi þess að halda sig frá öfgum í félagslegri baráttu.
„Hinn gullni meðalvegur er þó alltaf sterkastur. Allar öfgar fara öfugt inn í hugsanagang samfélagsins, barátta sem er mjög öfgafull snýst upp í andhverfu sína,“ sagði hún.
Hún varaði við því að öfgar í jafnréttisbaráttu gætu eyðilagt góðan málstað og taldi að jafnvægi væri lykilatriði í því að ná varanlegum árangri.
Skilaboð sem eiga enn við í dag
Vigdís hefur alla tíð verið fyrirmynd fyrir konur og karla um allan heim, ekki aðeins fyrir leiðtogahæfileika sína heldur einnig fyrir óaðfinnanlega framkomu og þau heilsteyptu skilaboð sem hún hefur sent um mikilvægi jafnréttis og samvinnu kynjanna.
Þegar ný kynslóð lærir um líf hennar og störf er ljóst að arfleifð hennar heldur áfram að skína skært.