Ummæli Ragnars Þórs Ingólfssonar um óeðlilega háar starfslokagreiðslur embættismanna hafa verið rifjuð upp í ljósi þess að hann sjálfur fékk nýverið rúmar tíu milljónir króna í biðlaun frá VR.
Ragnar Þór gagnrýndi árið 2019 harðlega starfslokasamning ríkislögreglustjóra og kallaði það óþolandi að pólitísk forréttindastétt nyti sérkjara sem venjulegt launafólk fengi ekki.
„Ragnar Þór fordæmdi þessa greiðslu og sagði slíka sérmeðferð ólíðandi“
Nú þegar hann lætur af störfum sem formaður VR til að taka sæti á Alþingi hefur komið í ljós að hann naut sjálfur sex mánaða biðlauna frá VR þrátt fyrir að hafa þegar hafið störf sem þingmaður og voru þau greidd út sem eingreiðsla.
Þessi ummæli hljóta að teljast óheppileg í ljósi þess að hann sjálfur nýtur nú þeirra kjara sem hann fordæmdi á sínum tíma.
Ragnar Þór gagnrýndi háa starfslokagreiðslu ríkislögreglustjóra
Ragnar Þór Ingólfsson, þáverandi ormaður VR, gagnrýndi harðlega háa starfslokagreiðslu Haraldar Johannessen, fráfarandi ríkislögreglustjóra.
Hann sagði óásættanlegt að embættismenn ríkisins nytu sérkjara sem almennt launafólk hefði ekki aðgang að.
Haraldur lét af störfum um áramót og var ráðinn til sérstakra ráðgjafastarfa fyrir dómsmálaráðherra til loka mars 2020.
Að því loknu tók við starfslokasamningur sem tryggði honum óskert laun í 18 mánuði, samtals rúmlega 31 milljón króna, auk orlofs- og biðlaunagreiðslna.
Ragnar Þór fordæmdi þessa greiðslu og sagði slíka sérmeðferð ólíðandi.
Hann benti á að venjulegt launafólk þyrfti að vinna fyrir sínum launum og gæti í einstaka tilvikum fengið greiddan uppsagnarfrest, en það væri undantekning.
„Fólk er algjörlega búið að fá upp í kok af þessu,“ sagði Ragnar Þór og krafðist þess að sömu reglur giltu yfir alla.