Auglýsing

Harðorð gagnrýni á ummæli Stefáns Einars – „Afskaplega ógeðfelldur maður“

Ummæli blaðamannsins Stefáns Einars sem mætti í afmælisútgáfu Harmageddon hafa vakið hörð viðbrögð í umræðuþættinum Rauða Borðið þar sem María Hjálmtýsdóttir, Sigtryggur Jóhansson ljósmyndari og Magga Stína ræddu orð hans og þau sjónarmið sem hann setti fram.

Tillaga um að flytja Palestínumenn úr Gasa vekur hneykslun

Stefán Einar ræddi í viðtalinu um möguleikann á að koma upp nýju samfélagi á Gasa undir friðargæslu en lagði áherslu á nauðsyn þess að Ísrael héldi þar hernaðarviðbúnaði til að bregðast við árásum frá „hryðjuverkamönnum“.

Hann hélt því jafnframt fram að nágrannaríki Palestínu eins og Jórdanía og Sýrland hefðu ekki sýnt vilja til að taka á móti flóttafólki þaðan og setti fram þá hugmynd að hægt væri að greiða þessum ríkjum fyrir að hýsa fólkið.

„Kannski verður þetta samið við þessi ríki, að þau taki við greiðslum fyrir að taka á móti þessu fólki,“ sagði Stefán Einar.

„Hann er alltaf mjög ógeðfelldur. Það er mín skoðun. Afskaplega ógeðfelldur maður“

Hann gagnrýndi jafnframt að Palestínumenn væru undir stjórn hryðjuverkasamtaka og vitnaði í fyrrverandi forsætisráðherra Ísraels, Golda Meir, sem sagði að friður næðist „þegar þessir menn elska börnin sín meira en þeir hata okkur.“

Hörð viðbrögð þáttastjórnenda

Þessi ummæli vöktu hörð viðbrögð meðal þáttastjórnenda en María kallaði orð hans „svolítið svakaleg“ og Sigtryggur benti á að Stefán Einar væri í raun að endurtaka orðræður sem áður hefðu komið frá stjórnmálamönnum eins og Donald Trump.

„Hann er náttúrulega eiginlega bara að endurtaka þessar Trump hugleiðingar,“ sagði Sigtryggur og bætti við að umræðan væri með þeim hætti að ljóst væri að margir aðhyllast slíka hugmyndafræði.

Magga Stína tók undir gagnrýnina og sagði orð Stefáns Einars sýna „hið viðbjóðslegasta sem fasisti getur undirstrikað í nútímanum.“

„Afskaplega ógeðfelldur maður“

Magga Stína gagnrýndi ekki aðeins orðræðu Stefáns Einars heldur kallaði hann hreinlega einstaklega ógeðfelldan einstakling.

„Þetta er bara alltaf þvættingur hjá honum, sko, hann er alltaf mjög ógeðfelldur. Það er mín skoðun. Afskaplega ógeðfelldur maður,“ sagði hún.

„Hann talar eins og Palestínumenn geti bara pakkað saman og farið“

Þáttastjórnendurnir ræddu jafnframt þá staðhæfingu Stefáns Einars að Palestínumenn gætu einfaldlega flutt til nágrannaríkja ef þau vildu betra líf.

„Ég mæli bara með því að hann flytji sjálfur til Raufarhafnar strax í fyrramálið,“ sagði Magga Stína og bætti við að slíkt tal væri ómannúðlegt og fráleitt.

Tvískipt samfélag og stimplun skoðana

Sigtryggur gagnrýndi hvernig samfélagsumræðan væri að þróast í átt að tvískiptingu þar sem annaðhvort væri fólk með eða á móti ákveðnum viðhorfum og að öll gagnrýni væri stimpluð sem öfgafull afstaða.

„Við höfum verið kallaðir stuðningsmenn hryðjuverka bara fyrir að hafa ákveðnar skoðanir,“ sagði hann.

„Þetta er að verða norm“ – Normalísering öfgaviðhorfa

Þáttastjórnendurnir ræddu einnig hvernig ákveðinni hugmyndafræði væri smyglað inn í meginstraum umræðunnar og hvernig ákveðin sjónarmið væru orðin „norm“.

María sagði að þetta væri hættulegt ferli.

„Þegar þetta er orðið hluti af meginstraumnum og þegar þessu er dreift á vinsælustu hlaðvarpsveitunum þá er þetta orðið hluti af opinberri umræðu,“ sagði hún.

Múslimahatur og afstaða til kapítalisma

Loks kom upp umræðan um múslimahatur og hvernig Íslam hefur verið sett fram sem andstæðingur vestræns kapítalisma.

Sigtryggur benti á að Jesús Kristur hefði einnig ögrað kapítalismanum en að slík sjónarmið væru ekki hluti af orðræðu þeirra sem gagnrýna múslima.

„Stefán Einar, sem er sjálfur guðfræðingur, myndi aldrei ganga svo langt að tengja þetta við kristna trú,“ sagði Magga Stína og bætti við: „Hann notar trúna bara sem tæki til að styðja sína hugmyndafræði.“

„Hann gengur beint inn í trúarhatrið“

Umræðan endaði á þeirri niðurstöðu að ummæli eins og þau sem Stefán Einar lét falla væru ekki bara hluti af orðræðu eins manns heldur hluti af stærra mynstri þar sem viðhorf sem áður þóttu öfgakennd væru smám saman að verða eðlileg í almennri umræðu.

„Hann gengur beint inn í trúarhatrið eins og allir hans skoðanabræður,“ sagði Magga Stína.

Hægt er að horfa á þáttinn í heild sinni hér fyrir neðan en til að fara á tímapunktinn sem umræðan byrjar sem vísað er í að ofan er hægt að smella hér eða fara beint á 1:00:48 í spilaranum.

Til að sjá allan þáttinn á streymisveitunni Brotkast er hægt að fara inn á Brotkast.is og kaupa fyrsta mánuðinn á aðeins 99. krónur!

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing