Óhætt er að segja að JD Vance, varaforseti Bandaríkjanna, hafi stimplað sig inn í alþjóðapólitík með látum um helgina sem leið. Hélt hann magnaða ræðu á öryggisráðstefnu í München þar sem hann messaði yfir stjórnmálaelítu Evrópu. Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra voru á meðal þeirra sem þurftu að hlýða á skammaræðu hans.
Í ræðunni færði hann rök fyrir því að helsta ógn Evrópubúa væri ekki ytri ógnir eins og Rússland eða Kína heldur eigin valdaelíta sem stöðugt hunsi vilja kjósenda og sýni síaukna alræðistilburði. Gömul frjálslynd lýðræðissjónarmið sem hösluðu sér völl eftir seinni heimsstyrjöldina væru á fallandi fæti í Evrópu og réttur til frjálsra skoðanaskipta hafi ýmist verið bannaður eða þaggaður niður í mörgum ríkjum álfunnar. Í Evrópu hafi tekið við ný kynslóð stjórnmálamanna sem sætti sig ekki lengur við frjálslynd sjónarmið um mannréttindi og málfrelsi sem við höfum alist upp við og vanist.
„Mikilvægt er að hver og einn hlusti á ræðu JD Vance í heild sinni og dæmi fyrir sig í stað þess að hlusta eingöngu á hraðsuðutúlkanir meginstraumsfjölmiðla“
Þá gerði Vance það að umtalsefni sínu hvernig nýlegar niðurstöður lýðræðislegra forsetakosninga í Rúmeníu hefðu verið dæmdar ógildar á afar hæpnum forsendum af þarlendum stjórnlagadómstól. Stjórnvöld í Þýskalandi hafa einmitt einnig hótað að ógilda niðurstöður kosninga ef Íhaldsflokkurinn AfD fái góða kosningu. Þá sagði JD Vance að Bandaríkin ættu enga samleið með Evrópu ef valdaelítan væri hrædd við sína eigin kjósendur. Ljóst er að við erum á tímamótum hvað varðar samband Bandaríkjanna og Evrópu.
Segja má að JD Vance hafi í raun talað beint til íbúa Evrópu en ekki þeirrar valdaelítu sem á staðnum var. Mikilvægt er að hver og einn hlusti á ræðu varaforsetans í heild sinni og dæmi fyrir sig í stað þess að hlusta eingöngu á hraðsuðutúlkanir meginstraumsfjölmiðla. Þær hafa reynst misgáfulegar svo ekki sé meira sagt.
Löggjöf um hatursorðræðu hentug til ritskoðunar
Ísland er á sömu vegferð og Evrópa. Nýlega voru samþykkt lög á Alþingi um svokallaða hatursorðræðu sem gagnrýnendur telja oft notaða af stjórnvöldum til að þagga niður umræðu sem sé valdhöfum ekki þóknanleg eða ógni valdastöðu hennar. Lítið fór fyrir gagnrýni á lagasetninguna í fjölmiðlum eins og sést þegar leitað er á netinu af fréttum um löggjöfina.
Samtökin 78 hafa kært fimm aðila á grunni þessara laga frá árinu 2023. Umrædd samtök eru að mestu leiti fjármögnuð af skattgreiðendum og má því færa rök fyrir því að þar sé í raun um ríkisstofnun að ræða sem stjórnmálamenn noti til að vinna þau verk sem stjórnvöld hafa ekki enn sem komið er valdheimildir til að vinna.
„Allar reglur sem samþykktar eru í Evrópu, sem rýra rétt okkar til skoðanaskipta, munu sjálfkrafa taka gildi hér á Íslandi“
Þá hafa verið samþykkt lög um peningaþvætti sem gerir það að verkum að fólk er farið að skammast sín fyrir að taka út eða leggja inn fjármuni undir rannsakandi augnaráði bankastarfsmanna. Bönkunum er vorkunn því þeir eru hræddir við hinn þétta og jafnframt kalda faðm opinberra eftirlitsaðila. Í fyrra neyddist Arion banki að gangast undir 585 millj.kr. sáttargreiðslu til ríkissjóðs og Íslandsbanki þurfti að greiða 570 millj.kr. í sekt. vegna brota á framangreindri löggjöf.
Í nýlegri skýrslu Evrópsku verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunarinnar kemur fram að íslensk stjórnvöld beri höfuð og herðar yfir allar aðrar ríkisstjórnir Evrópu þegar kemur að beitingu sekta og viðurlaga. Þrátt fyrir að við séum einungis 0,1% af íbúafjölda Evrópu að þá greiða íslensk fyrirtæki 10% af heildarsektarfjárhæð á öllu evrópska efnahagssvæðinu. Eina landið í Evrópu þar sem heildarfjárhæð sekta í evrum talið er hærra en á íslandi er Frakkland en þar búa um 70 miljónir manna.
Ókynnt plön ríkisstjórnarinnar vekja upp spurningar
Þá hefur ríkisstjórnin lagt fram frumvarp um bókun 35 sem tryggir að erlend löggjöf gangi framar íslenskri löggjöf. Þannig að allar reglur sem samþykktar eru í Evrópu, sem rýra rétt okkar til skoðanaskipta, munu þá sjálfkrafa taka gildi hér á íslandi. Það kann að vera þægilegt fyrir íslenska stjórnmálaelítu að geta vísað ábyrgðinni til Brussel þegar búið er að aftengja lýðræðið með slíkum hætti á Íslandi.
Í ljósi þróunar í Evrópu hlýtur sú spurning að vakna hvaða áhrif bókun 35 hefur á rétt stjórnvalda til að stýra almenningi og beita refsingum fyrir óæskileg sjónarmið eða gagnrýni á valdhafa. Fyrir liggur þó að refsigleði stjórnvalda er mikil og ný ríkisstjórn hefur lagt til stóraukið fé eða um 2,5 milljarða aukningu til löggæslu og fangelsismála.
Í aðdraganda kosninganna fór lítil umræða fram um bókun 35 af hálfu núverandi valdhafa og hvað þá að ausið yrði enn fleiri milljörðum í erlendan stríðsrekstur, eða að kosið yrði um inngöngu í Evrópusambandið. Þau voru öll með plan fyrir kosningar. Lækka átti vexti, íbúðum átti að fjölga og hagur barna átti að aukast. Vafalítið hefðu kjósendur þegið meiri umræðu um öll hin plönin sem forystufólk nýrrar ríkisstjórnar hafa dregið upp úr hattinum eftir kosningar.