Mikil óánægja var meðal þeirra farþega sem áttu bókað flug til Alicante þann 2.janúar með flugfélaginu PLAY en svo virðist sem hvert klúðrirð hafi rekið annað.
Upprunalega átti flugvélin að taka á loft um 15:30 um daginn en nokkrum mínútum fyrir áramótin fengu farþegar tilkynningu frá flugfélaginu um að fluginu hafi verið flýtt og myndi nýr brottfarartími vera 06:00 að morgni.
Með þessu fylgdi svo tilkynning um að PLAY myndi láta matarmiða fylgja með eins og þeim ber skylda til þegar svo mikil röskun á sér stað en ekki var tilkynnt um ástæðu nýs flugtíma.
Vandræðin byrja
Vandræði farþega byrjuðu eftir að búið var að fara gegnum öryggisleit því nokkur röð myndaðist á þeim stöðum sem opnir voru rétt rúmlega fjögur um morguninn.
Farþegarnir komu hver á eftir öðrum og ætluðu að nýta sér matarmiðann sem þeir fengu frá flugfélaginu en þetta eru miðar með svokölluðum QR kóða sem er skannaður af söluaðila.
Í ljós kom að ekki var innistæða á einum einasta matarmiða en hver og einn átti að vera að upphæð 2.000 krónur.
Miklar tafir urðu vegna þessa í röðum matsölustaða en um það bil hver og einn farþegi lét athuga alla þá miða sem þeir höfðu undir höndum í von um að ekki hafi verið gerð sömu mistök við úthlutun allra miða.
Aðspurt sagði starfsfólk eins veitingastaðar að þetta væri því miður ekkert nýtt og ráðlagði viðskiptavinum að geyma alla kvittanir og senda flugfélaginu í von um endurgreiðslu.
Farþegar voru duglegir að hrósa starfsfólki veitingastaðanna sem skrifaði aftan á þá miða sem fólk fékk en annað hljóð var í fólki með matarmiða flugfélagsins.
Engar upplýsingar um brottför
Vegna þeirra tafa sem vandinn með miðana olli voru sumir orðnir nokkuð tæpir á tíma og þurftu því að drífa sig að hliðinu en þá kom annað í ljós og alveg sama hversu vel farþegar leituðu, hvergi var hægt að finna upplýsingar um flug þeirra til Alicante.
Olli þetta nokkru uppnámi og óðagoti hjá sumum og stukku nokkrir þeirra til og reyndu að leita upplýsinga hjá flugfélaginu en hvergi var hægt að komast í samband við flugfélagið.
Það varð þó einhverjum til happs að þeir byrjuðu að ganga í blindni inn í flugstöðina en þegar lengra var komið mátti heyra rödd yfir hátalarakerfið þar sem tilkynnt var hvert skyldi halda.
Mikla óanægju mátti greina meðal farþegar vegna alls þessa en þó voru engar kvartanir yfir fluginu sjálfu enda fær starfsfólk vélarinnar hrós frá þeim farþegum sem Nútíminn ræddi við.
Salt í sárin
Til að bæta svo salti í sár þeirra sem hafa nú þurft að setja sig í samband við flugfélagið tilkynnir flugfélagið að endurgreiðsla vegna matarmiða sem ekki virkuðu geta tekið allt að sex vikum, það er að segja ef að það verður endurgreitt en slíkt verður metið í hverju tilviki fyrir sig.
Skýrt er þó tekið fram þegar krafa um endurgreiðslu er sett fram að áfengir drykkir séu ekki endurgreiddir undir neinum kringumstæðum en sumir af þeim stöðum sem matarmiðarnir giltu á selja áfenga drykki.
Það er ekki óþekkt að þeir sem halda til heitari landa vilji fá sér einn kaldan en líklega þurfa þeir þó að sitja uppi með reikninginn sjálfir.
Uppfært klukkan 19:10 – Play kemur skýringum á framfæri
Nútímanum barst tilkynning frá samskiptastjóra Play rétt í þessu sem er svohljóðandi:
Síðastliðinn desember reyndist krefjandi i flugrekstri vegna veðurfars og þá varð bilun á einni farþegaþotu í flota PLAY sem gerði félaginu erfitt fyrir á þeim annasama tíma sem er um hátíðirnar. Við það fór flugáætlun okkar úr skorðum en starfsfólk okkar hefur unnið dag og nótt að því að koma öllu í rétt horf.
Við leggjum áherslu á að upplýsa farþega eins fljótt og mögulegt er, og í tilviki flugs þann 2. janúar til Alicante voru upplýsingar sendar út þann 31. desember.
Við hörmum að matarmiðar hafi ekki virkað sem skyldi. Slík þjónusta er veitt af utanaðkomandi aðilum, og unnið er að skýringum á biluninni.
Við erum stolt af starfsfólki PLAY sem hefur fundið lausnir í krefjandi aðstæðum og lagt sig fram við að tryggja að farþegar komist á áfangastað. Þjónustukannanir sýna jákvæðar niðurstöður, en alltaf má gera betur og við leitum stöðugt leiða til að bæta ferla og þjónustu.