Auglýsing

Segir bæði lögreglu og leyniþjónustu hafa vitað af skotmanninum en ekkert aðhafst

Reynt var að ráða Donald Trump af dögum fyrr í kvöld en Trump er eins og flestir vita fyrrum forseti Bandaríkjanna og núverandi forsetaframbjóðandi.

Trump var að halda ræðu í Pennsylvaníu fylki þegar háir skothvellir heyrðust og leyniþjónustumenn sáust hlaupa upp til handa og fóta. Einn samkomugestur er sagður hafa látið lífið samkvæmt Sky News.

Blóð sást renna við eyra Trump og er talið að kúla hafi hitt hann eða strokist við eyra hans. Trump stóð þó fljótt upp aftur og steytti hnefann við mikinn fögnuð viðstaddra. Leyniþjónustumenn sáust bókstaflega draga hann af sviðinu.

Ætlaður tilræðismaður var síðan felldur af leyniþjónustu manni strax í kjölfarið.

Það sem vekur mikla athygli er viðtal BBC við aðila sem var viðstaddur gleðskap nálægt samkomunni en var í augsýn við byssumanninn og segist hafa séð þegar maðurinn var að koma sér fyrir í skotstöðu.

Maðurinn segir að hann hafi verið í veislu ásamt vinum og fjölskyldu og að ætlun þeirra hafi verið sú að tylla sér svo ekki langt frá samkomunni í skugga trjánna og hlusta á ræðu Trump.

Sáu tilræðismanninn koma sér fyrir

Hann segir frá að um það bil fimm til sjö mínútum eftir að ræða Trump hófst hafi þau séð mann byrja að koma sér í stöðu uppi á þaki og að greinilega hafi sést að maðurinn hafi verið með riffil.

Hann tók sérstaklega fram að maðurinn hafi notað stíl hermanna til að skríða og koma sér svo í stöðu en slíkt er kallað „bear crawling“.

Hann segir að mjög greinilegt hafi verið að maðurinn hafi verið með riffil og þess vegna hafi hann ásamt öðrum kallað til lögreglu og látið þá vita að þarna væri maður með riffil að koma sér fyrir.

Hann tók fram að lögreglan hafi virkað ráðalaus og ekkert gert en þau hafi haldið áfram að benda þeim aftur og aftur á að þarna væri maður með riffil og hann hafi velt fyrir sér af hverju Trump væri enn að tala því hann bjóst við að leyniþjónustan myndi koma honum í öruggt skjól eftir slíkar fréttir.

Sagðist hann hafa náð athygli leyniþjónustumanna og bent ákaft á þakið þar sem maðurinn var mínútum saman án þess að leyniþjónustan hafi nokkuð aðhafst.

Skömmu seinna hafi hann svo heyrt fimm skothvelli og aðspurður hvort hann væri viss um að skotin hafi komið frá manninum sem hann sá til segir hann að á því leiki enginn vafi og að maðurinn hafi verið á þakinu í nokkrar mínútur.

Fréttamaður BBC spyr hann svo hvort hann sé viss um að lögregla og leyniþjónustan hafi séð hann benda á tilræðismanninn og segir hann þá einnig engan vafa leika því.

Hann tekur þó fram að líklega hafi gæslumenn ekki séð manninn uppi á þakinu þar sem þeir stóðu en furðar sig á af hverju þeir hafi ekki athugað stöðuna uppi á öllum nærliggjandi húsþökum.

„Þeir skutu af honum hausinn“

Aðspurður segir hann að tilræðismaðurinn hafi verið drepinn stuttu eftir að hafa hleypt af en leyniþjónustan hafi skotið manninn og hann hafi orðið vitni að því.

Hann segir þá hafa farið upp á þak með byssur til að tryggja að maðurinn væri óvígur.

„Því skipti enginn sér af honum?“

Maðurinn segist vera í áfalli eftir að hafa orðið vitni að því hversu auðveldlega maðurinn hafi komist framhjá bæði lögreglu og leyniþjónustunni og enn undarlegra þyki honum að enginn hafi hlaupið til þegar hann og fleiri bentu ítrekað á tilræðismanninn.

Þá tekur hann fram að mjög fáar byggingar sem mögulegt væri að nýta í slíkum tilgangi séu í nágrenninu og þess vegna ætti að vera auðvelt fyrir öryggisgæsluna að vakta þær byggingar.

Viðtalið er hægt að sjá í heild sinni hér að neðan.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing