Þungarokkshljómsveitin Skálmöld hélt tónleika í stórkostlegu umhverfi á Raufarhöfn en Heimskautsgerðið á staðnum er orðið eitt flottasta kennileiti landsins og vekur allsstaðar athygli en verkið á rætur sínar í norrænni goðafræði.
Það er því varla til betri blanda en grjóthart víkingarokk, fullkomið haustveður og tignarlegt heimskautsgerðið þegar kemur að því að halda slíka tónleika.
Tónleikarnir slógu í gegn og höfðu verið lengi í undirbúningi sem skilaði sér í því að fjöldi fólks í þorpinu næstum áttfaldaðist en á Raufarhöfn búa um 200 manns en mæting á tónleikana var um 1.500 manns.
Raufarhöfn á uppleið
Mikil uppbygging hefur átt sér stað á Raufarhöfn undanfarin ár og sífellt meira við að hafa fyrir þorpsbúa en flesta þjónustu er að finna á staðnum ásamt skóla og íbúar lögðust allir á eitt til að taka vel á móti mannfjöldanum.
Nanna Steina Höskuldsdóttir sem situr í stjórn Heimskautsgerðisins á stærstan heiður af því að koma þessum frábæru tónleikum á en hún segir frábært að búa á Raufarhöfn og vonast til að viðburður eins og þessi fái fólk til að horfa til Raufarhafnar með búsetu í huga því það eina sem þorpið vantar í raun séu fleiri íbúar.
Fyrir neðan má sjá nokkur myndbönd frá tónleikunum. Í sum þeirra vantar hljóð vegna hödundarréttalaga en það fyrsta er frá Castor Media en hin eru tekin af Ólafi Agnarssyni og eins og er augljóst að stemmingin hefur verið stórkostleg.
Ljósmyndir tók svo Katrín Sigurjónsdóttir en forsíðumyndina tók Davíð Atli Jones.