Auglýsing

Verkföll kennara byrjuð að valda erfiðleikum á Landspítalanum

Í byrjun vikunnar hófust verkfallsaðgerðir í völdum leik- og grunnskólum en fleiri skólar gætu bæst við á næstu dögum.

Verkfallið hefur þegar haft mikil áhrif á starfsfólk Landspítala þar sem margir þurfa að vera heima með börnum sínum en starfsfólk fékk nýlega þá tilkynningu að ekki væri hægt að fá launað leyfi vegna þessara aðgerða.

„Allir treysta á að við höldum spítalanum gangandi sama hvað – en við megum ekki við því að verða tekjulaus“

Í tilkynningu til starfsmanna spítalans kemur fram að ekki sé veitt launað leyfi fyrir þá daga eða tíma sem starfsfólk þarf að vera heima vegna verkfallsaðgerðanna.

Starfsmenn hafa í staðinn þrjá valkosti:
• Að nýta orlofsdaga í samráði við stjórnanda.
• Að taka launalaust leyfi í samráði við stjórnanda.
• Að óska eftir breytingu á vakt í samráði við stjórnanda, þó án þess að fá greidd breytingagjöld.

Starfsfólk í áfalli yfir stöðunni

Verkfallið bitnar á starfsfólki Landspítala á tímum þar sem mönnun er þegar í lágmarki.

Að sögn starfsmanns sem hafði samband við Nútímann vantar nú þegar um 400 sjúkraliða og 80 hjúkrunarfræðinga til starfa á spítalanum en þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hefur ekki tekist að manna þessar stöður.

„Þetta er ekki auðvelt, ekki allir með bakland fyrir svona verkfall,“ segir starfsmaður sem rætt var við.

„Allir treysta á að við höldum spítalanum gangandi sama hvað – en við megum ekki við því að verða tekjulaus.“

að sögn starfsmannins eru fleiri á spítalanum að þjást af mikilli vanlíðan og óvissu vegna stöðunnar.

„Við vorum í miklu sjokki í morgun og bugun að lenda í þessu,“ segir starfsmaðurinn og bætir við að engin undanþága hafi verið veitt fyrir heilbrigðisstarfsfólk.

Áhrifa verkfallsins gætir um allan spítalann

Óvíst er hversu margir á Landspítalanum verða fyrir áhrifum verkfallsins en að sögn starfsmannsins glíma margar deildar í báðum byggingum spítalans við svipuð vandamál.

Margt starfsfólk stendur nú frammi fyrir erfiðum ákvörðunum um hvort það geti sinnt störfum sínum eða neyðist til að vera heima með börnum sínum án launa.

Lítið hefur komið fram um hvort stjórnvöld hyggist grípa inn í stöðuna, en með sífellt fjölmennari verkfallsaðgerðum gæti ástandið á Landspítalanum versnað enn frekar á næstu dögum.

Fulltrúi Landspítala vildi ekki tjá sig um málið að svo stöddu.

Fyrir neðan má sjá tilkynninguna í heild sinni.

Tilkynningin sem starfsmenn Landspítala fengu

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing