Tónlistin í heimildamyndinni A SONG CALLED HATE er komin á stafrænar efnisveitur. Tónlistin sem er eftir Margréti Rán úr VÖK hefur vakið mikla athygli. Áhrifamikill hljóðheimur myndarinnar skapar sterka rödd í verkinu og ýtir undir tilfinningalegan rússíbana á köflum. Margrét Rán þreytir hér frumraun sína í að semja verk fyrir mynd í fullri lengd. Bergur Þórisson var tónlistarstjóri og aðstoðaði við að klippa og hljóðblanda verkið.
„Þetta er eitthvað sem mig hefur alltaf langað til að gera og það var því frábært tækifæri að fá að vinna með Önnu Hildi og hennar teymi. Ég lifði mig mjög mikið inn í fyrstu klippin sem ég fékk frá henni og smám saman bjó ég til safn af þeim tilfinningum sem ég skynjaði þegar ég var að upplifa ferðalag Hatara í gegnum myndirnar sem ég sá. Það var líka mikill bónus að kynnast Bergi í þessu ferli. Við unnum mjög vel saman þegar kom að því að klippa tónlistina til og leggja hana undir myndina,“ segir Margrét Rán sem stendur í ströngu þessa dagana þar sem hún sendir bæði frá sér tónlist með VÖK og er gestasöngkona hjá Gus Gus.
A Song Called Hate hefur verið sýnd á 9 kvikmyndahátíðum í Evrópu undanfarið. Hún hefur verið tilnefnd til fjölda verðlauna, m.a. Free Spirit verðlaunanna á Kvikmyndahátíðinni í Varsjá og sem besta norræna heimildamyndin á Gautaborgarhátíðinni. Þá vann hún verðlaun sem besta tónlistarheimildamyndin í fullri lengd á See You Sound hátíðinni á Ítalíu þar sem sérstaklega var tilgreint hversu öflug tónlistin og hljóðmyndin í verkinu væri.
Myndin hefur verið sýnd í kvikmyndahúsum vítt og breytt um landið undanfarnar vikur við góðar undirtektir. Þeir sem misstu af henni í bíó þurfa ekki að örvænta því myndin verður sýnd í þremur hlutum í páskadagskrá RÚV.
Leikstjóri og framleiðandi myndarinnar er Anna Hildur Hildibrandsdóttir hjá Tattarrattat. RÚV eru meðframleiðendur.