Ævar Þór Benediktsson mætir á Amtsbókasafnið þriðjudaginn 16. nóvember og les upp úr nýjustu bók sinni, Þín eigin ráðgáta.
Ævar Þór er mikill vinur safnsins og hefur margoft lesið upp úr bókum sínum þar, við miklu hrifningu viðstaddra.
Bækur Ævars hafa hvatt mörg ungmenni til lestrar, auk lestrarátaka hans, svo það er ansi vel við hæfi að hann heimsæki safnið á þessum degi, en 16. nóvember er dagur íslenskrar tungu.
Um bókina:
Þín eigin ráðgáta eftir Ævar Þór Benediktsson er öðruvísi en aðrar bækur. Hér ert þú söguhetjan og stjórnar ferðinni. En verkefnið er ekki auðvelt. Einn daginn vaknarðu og ekkert er eins og áður. Allir símar eru ónýtir. Samfélagsmiðlar eru hættir að virka. Tölvuleikir hafa þurrkast út. Hvað í ósköpunum gerðist? Þér er falið að leysa gátuna enda hefurðu sýnt og sannað að ekkert er of snúið fyrir þig. Eða hvað?
Bókin er sú áttunda í einum vinsælasta bókaflokki síðari ára og sem fyrr ræður lesandinn framvindunni, en í þessari bók eru næstum 40 mismunandi endar.