Það er óhætt að segja að hljómsveitin Purrkur Pillnikk hafi haft mikil áhrif í íslensku tónlistarlífi, bæði á meðan hljómsveitin starfaði, og ekki síður eftir það, allt fram til dagsins í dag. Þrátt fyrir að hafa starfað aðeins í um það bil eitt og hálft ár, frá mars 1981 til ágúst 1982, gætir áhrifa hennar víða og má því kalla meðlimi sveitarinnar nokkurs konar „áhrifavalda.“
Meðlimir sveitarinnar hafa nú ákveðið að gefa út heildarsafn verka sinna sem ber heitið „Orð fyrir dauða“ en þeir eru Einar Örn Benediktsson, Friðrik Erlingsson, Bragi Ólafsson og Ásgeir Bragason en sá síðastnefndi féll frá árið 2015. Í hans stað, nú á síðari árum, kom inn trommuleikarinn Sigtryggur Baldursson.
Í tilkynningu frá sveitinni kemur fram að eldri plötur hafi verið „re-masteraðar“ og um sé að ræða 180g vínilplötur auk 48-síðna bæklings sem aðdáendur fá í veglegum kassa. Þá segir að í kassanum sé einnig að finna áður óútgefið tónleika- og æfingaefni.
„…og fyrstu hljóðversupptöku á Orðum fyrir dauða, síðustu fimm lög Purrksins, sem samin voru fyrir lokatónleikana á Melavelli í ágúst árið 1982. Einnig nýjar útgáfur af fjórum af þekktustu lögum hljómsveitarinnar, sem hér kallast Afturgöngur 2023. Bóklingurinn er með ítarefni frá sögu hljómsveitarinnar og textum frá fólki á ólíkum aldri aem hefur fylgst með Purrkinum gegnum tíðina. Allir textar hljómsveitarinnar eru hér að auki í fyrsta sinn prentaðir í heild.“
Forsala á „Orðum fyrir dauða“ er hafin á vef Smekkleysu og lýkur 1. desember næstkomandi en aðdáendur sveitarinnar ættu að mæta í útgáfuteitið sem er þann 2. desember í Smekkleysu Plötubúð. Þar mun Purrkur Pillnikk spila lög sín á milli klukkan 17 og 19.
Fréttatilkynning Purrkur Pillnikk í heild sinni:
Purrkur Pillnikk gefur út heildarsafn verka sinna sem ber heitið Orð fyrir dauða. Eldri plötur hafa verið re-masteraðar. Auk þess er í kassanum að finna áður óútgefið tónleika- og æfingaefni, og fyrstu hljóðversupptöku á Orðum fyrir dauða, síðustu fimm lögum Purrksins, sem samin voru fyrir lokatónleikana á Melavelli í ágúst 1982. Einnig nýjar útgáfur af fjórum af þekktustu lögum hljómsveitarinnar, sem hér kallast Afturgöngur 2023. Bóklingurinn er með ítarefni frá sögu hljómsveitarinnar, og textum frá fólki á ólíkum aldri, sem fylgst hefur með Purrkinum gegnum tíðina. Allir textar hljómsveitarinnar eru hér að auki í fyrsta sinn prentaðir í heild.
Hljómsveitin Purrkur Pillnikk starfaði í um það bil eitt og hálft ár, frá mars 1981 til ágúst 1982. Fyrir lokatónleika Purrksins samdi hljómsveitin fimm ný lög, undir yfirskriftinni Orð fyrir dauða, og voru þessi lög aðeins flutt við það eina tækifæri, og reyndar aftur þremur árum síðar, þegar hljómsveitin kom saman á ný, á einum tónleikum, þá með trommuleikaranum Sigtryggi Baldurssyni.
Það er óhætt að segja að Purrkur Pillnikk hafi haft mikil áhrif í íslensku tónlistarlífi, bæði á meðan hljómsveitin starfaði, og ekki síður eftir það, allt fram á þennan dag. Snemma á þessu ári, 2023, ákváðu Einar Örn Benediktsson, Friðrik Erlingsson og Bragi Ólafsson – Ásgeir Bragason, trommuleikari, féll frá árið 2015 – að fara í hljóðver til að taka upp Orð fyrir dauða, því þeim fannst sem þeir hefðu aldrei gert þessum síðustu lögum almennileg skil. Sem fyrr var Sigtryggur Baldursson með í hópnum, sem meðlimur hljómsveitarinnar, og einnig Örlygur Steinar Arnalds, sem meðal annars hefur starfað í hljómsveitunum sideproject og Korter í flog.
Purrkur Pillnikk lítur svo á að hinar nýju upptökur á Orðum fyrir dauða séu frumútgáfur þessara fimm laga, enda voru þau vart tilbúin í ágúst 1982, þá rétt nýsamin. Hugmyndin var að láta þau hljóma eins og þau væru samin „í gær“, enda hafa þau lifað í huga Purrksins í gegnum árin sem slík, og með aðkomu Örlygs Steinars og upptökustjórans Alberts Finnbogasonar telur hljómsveitin sig hafa gefið þessari tónlist algerlega nýtt líf, og í raun endurskapað hana. Upptökurnar voru gerðar í hljóðverinu Sundlaugin í maí 2023.
Forsala á Orðum fyrir dauða er hafin á www.smekkleysa.net og lýkur 1. desember 2023
Útgáfudagur er 2. desember 2023 og verður haldið uppá útgáfuna í Smekkleysu Plötubúð:
Purrkur Pillnikk gefur út Orð fyrir dauða.
Það er tilefni. Útgáfudagur er 2. desember 2023.
Milli klukkan 17 til 19. Við ætlum að spila. Það er tilefni.
Forsala er enn, og hægt verður að sækja Orð fyrir dauða.