Tónlistarhátíðin Aldrei fór ég suður verður haldin með óhefðbundnum hætti nú um páskana vegna samkomubannsins sem lagt hefur verið á. Hátíðin sem hefur verið haldin á Ísafirði árlega frá árinu 2004, mun í ár fara fram án gesta.
Þess í stað verður tónleikunum streymt í opinni dagskrá á netinu. Að sögn Kristjáns Fr. Halldórssonar, rokkstjóra og einum af skipuleggjendum hátíðarinnar, var ákvörðunin tekin í gær þegar leit út fyrir að fresta þyrfti hátíðinni eða aflýsa henni.
Haft var samband við flest það tónlistarfólk sem er á dagskrá hátíðarinnar og tók það vel í hugmyndina. En GDRN, Auður, Bríet, Helgi Björns, Hermigervill, Moses Hightower og VÖK eru meðal þeirra tónlistarmanna sem eru á dagskrá hátíðarinnar.
Það á eftir að útfæra framkvæmdina nákvæmlega en stefnt er að því að tónleikastaðir verði tveir, Ísafjörður og Reykjavík, og öllu svo streymt heim í stofu.
„Auðvitað er það mikið högg að missa hátíðina úr bænum en ég held að þetta sé besta lausnin. Að reyna að gera gott úr þessu og bjóða áfram upp á vestfirska menningu,“ segir Kristján.
Þetta kemur fram á vef mbl