Bandaríkin ætla nú að koma með sína eigin útgáfu af Eurovison söngvakeppninni og mun keppnin bera heitið ,,The American Song Contest.“
Greint er frá þessu á vef Variety og þar segir að fyrsta keppnin verði haldin í lok árs 2021.
Fyrirkomulagið á keppninni mun verða svipað og í Eurovison þar sem söngvari eða hópur söngvara frá hverju af 50 ríkjunum munu syngja frumsamin lög í beinni útsendingu. Ben Silverman verður framleiðandi þáttanna en hann færði bandaríkjamönnum evrópska þætti á borð við The Office, Big Brother og The Weakest Link. Hann segir að það hafi verið erfiðast að koma Eurovision til Ameríku.
,,Ég hef eytt 20 árum í að koma þessu í framkvæmd,“ segir Silverman sem segist spenntur yfir því að sjá þennan áratugalanga draum verða að veruleika.