Auglýsing

Anna Hildur ráðin fagstjóri skapandi greina við Háskólann á Bifröst

Anna Hildur Hildibrandsdóttir hefur verið ráðin í 50% starf við Háskólann á Bifröst þar sem hún mun leiða verkefni tengd skapandi greinum. Háskólinn á Bifröst hefur boðið upp á nám á meistarastigi í menningarstjórnun (MA og MCM) í meira en 20 ár. Diplómanámi í skapandi greinum var hleypt var af stokkunum haustið 2020 og næsta haust verður svo boðið upp á BA nám í faginu. Námsbrautin er sniðin fyrir þá sem vilja öðlast innsýn og skilning á starfi framleiðenda, verkefnastjóra, umboðsmanna, útgefenda, sýningastjóra, listrænna stjórnenda, framkvæmdastjóra, frumkvöðla og „brautryðjenda“ í hinum margvíslegu menningar- og hugverkagreinum sem sameinast undir skilgreiningunni skapandi greinar.  Einnig verður unnið að því að koma á fót Rannsóknarsetri skapandi greina.

Anna Hildur segir að ákveðinn draumur verði að veruleika í þessu starfi: Ég hef lengi brunnið fyrir því að við eignumst nám fyrir þá sem vilja starfa í framleiðslu- og dreifingarferli skapandi greina. Ég nota hugtakið skapandi greinar sem samheiti yfir atvinnu- og viðskiptalíf sem tengist listsköpun og menningu. Það er svo mikil gróska á Íslandi, alveg sama hvort við berum niður í tónlist, kvikmyndum, leiklist, hönnun, tísku, tölvuleikjum eða hvers kyns upplifun, afþreyingu, fjölmiðlun og nýmiðlun. Margir einstaklingar hafa náð undraverðum árangri og opnað dyr á alþjóðavísu. Við viljum miðla þekkingunni sem hefur orðið til og stuðla þannig að nýliðun.  Það er líka spennandi að geta unnið að stofnun rannsóknarseturs skapandi greina í þessu samhengi. Ég mun einbeita mér að því að efla samtal á milli háskólanna, samráðsvettvangs skapandi greina og Bandalags íslenskra listamanna því okkur bráðvantar bæði akademískar og hagnýtar rannsóknir á þessum ört vaxandi atvinnuvegi.”

Anna Hildur er kvikmyndagerðarkona sem starfaði um 20 ára skeið í tónlistargeiranum. Hún leiddi uppbyggingu Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar og NOMEX sem er norrænt samstarfsverkefni um tónlistarútflutning. Hún leiddi einnig vinnuna við kortlagningu og skýrslu um hagræn áhrif skapandi greina sem kom út árið 2011.   

Anna Hildur mun áfram sinna kvikmyndagerð samhliða störfum sínum fyrir Háskólann á Bifröst. Fyrsta heimildamyndin hennar í fullri lengd sem nefnist A Song Called Hate og fjallar um Eurovisiongjörning Hatara árið 2019 var tilnefnd til tveggja Edduverðlauna 2021.  

Anna Hildur er með BA-próf í íslensku og kennsluréttindanám frá HÍ. Hún tók MA í útvarpsvinnu frá Lundúnaháskóla með áherslu á útvarpsleikhús. Hún hefur búið og starfað í Bretlandi undanfarin 30 ár en flutti nýverið til Íslands.

Anna Hildur tók við starfinu 1. apríl sl.  Frekari upplýsingar um BA námið er að finna hér.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing