Bjarki Már barðist við krabbamein í 7 ár og stóð Ástrós Rut, kona hans, við hans hlið allan tímann.
Bjarki lést í byrjun sumars aðeins 32 ára gamall. Ástrós sagði frá lífi sínu sem 31 árs ekkja og einstæð móðir í einlægu viðtali í þættinum Ísland í dag, í kvöld, og ræddi hún meðal annars kveðjustund þeirra, sorgina, fósturmissi og framtíðina.
„Ég náði að vera hjá honum þegar ég kvaddi, hann var bara í fanginu á mér og þetta var yndisleg stund. Ég þakkaði honum fyrir allt sem að við höfum upplifað saman, ég þakkaði fyrir ástina og allt sem að hann hefur gefið mér. Hann kvaddi í örmum mínum og þetta var ein fallegasta og sorglegasta stund sem ég hef upplifað á ævi minni.“
Þó þeim hafi verið ljóst í hvað stefndi segir Ástrós að áfallið hafi verið mikið þegar dagurinn kom.
„Ég var ekki að trúa þessu, ég var bara ekki að ná því að hann væri farinn, mér fannst einhvern veginn að… ég var bara ekki að skilja að maðurinn minn væri farinn. Af því að hann var búinn að vera veikur svo lengi að maður var einhvern veginn vanur því, maður hélt einhvern veginn að hann væri ódauðlegur.“
Í spilaranum hér fyrir neðan má sjá viðtal Ísland í dag við Ástrósu í heild sinni.