Umhverfisstofnun óskar eftir tilnefningum til Bláskeljarinnar 2020. Viðurkenningin verður veitt fyrirtæki, stofnun, einstaklingi eða öðrum fyrir framúrskarandi lausnir sem stuðla að minni plastnotkun og plastúrgangi í samfélaginu.
Viðurkenningin er hluti af aðgerðum umhverfis- og auðlindaráðherra til að draga úr neikvæðum áhrifum plastnotkunar. Henni er ætlað að draga fram það sem vel er gert og hvetja til nýsköpunar. Sérstök úthlutunarnefnd velur viðurkenningarhafa en hana skipa fulltrúar frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Samtökum iðnaðarins, Plastlausum september og Umhverfisstofnun.
Óskað er eftir því að stutt greinargerð fylgi með tilnefningunum. Fyrirtæki, einstaklingar og stofnanir geta hvort heldur tilnefnt sig sjálf eða verið tilnefnd af öðrum.
Við val á verðlaunahafa er horft til eftirfarandi þátta:
- nýsköpunargildis viðkomandi lausnar
- dregur lausnin úr myndun úrgangs
- hvert er almennt framlag lausnarinnar til umhverfismála
- hvaða plastvöru er verið að komast hjá með lausninni
- hefur lausnin möguleika á að komast í almenna notkun
Tillögur skulu berast Umhverfisstofnun eigi síðar en 1. júlí næstkomandi, merktar „Tilnefning: Bláskelin“ á netfangið ust@ust.is eða með pósti til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík.
Umhverfis- og auðlindaráðherra mun veita viðurkenninguna þann 5. september 2020, á opnunarhátíð árvekniátaksins Plastlaus september.
Sjá nánar um Bláskelina hér.