„Þetta er dóttir mín og hún átti lífið framundan. Það er rosalega sárt að hugsa til þess að þetta hefði ekki þurft að gerast ef rétt hefði staðið verið að málum. Ef allir verkferlar og allt hefði verið rétt. Það var svo margt sem fór úrskeiðis. Svo margt.“
Þetta segir Bergþóra Birnudóttir, sem örkumlaðist við fæðingu eins stærsta barns sem fæðst hefur á Íslandi, undirbýr nú stefnu á hendur ríkinu vegna meintra læknamistaka.
Kveikur greinir frá þessu, en þegar Bergþóra var gengin þrjátíu og átta vikur blæddi hjá henni og hún fékk hríðir sem duttu svo niður. Hún vildi að fæðingin yrði sett af stað, hafði samband við ljósmóður sína, sagðist einfaldlega ekki geta ekki meir og bað hana að hringja í aftur í sama fæðingarlækni til að athuga hvað hægt væri að gera.
„Hún hringir svo til baka og segist hafa náð tali af henni. Og svörin sem ég fæ eru að ég eigi að taka þéttar Parkódín forte. Þannig að þarna bara verður mér ljóst: guð minn góður, það ætlar enginn að hjálpa mér,“ segir Bergþóra.
Eggert, maður Bergþóru, þurfti að hætta tímabundið að vinna á þessum tímapunkti til að hjúkra konu sinni, hjálpa henni að komast upp úr rúminu og aðstoða hana við að fara á salernið.
Skráningar í mæðravernd sýna að Bergþóra hélt áfram að lýsa slæmri líðan, hún geti „varla gengið eða hreyft sig“, og við 40 vikur er skráð að hún „grætur vegna verkja.“
Stærð fósturs er meðal annars metin með því að mæla hæð legbotnsins, sem þó er ekki nákvæm mæling. Á legvaxtariti Bergþóru má sjá að línan tekur kipp við þrítugustu og fimmtu viku og fer upp um um það bil eitt staðalfrávik, og fer raunar upp fyrir það í síðustu mælingunni.
Bergþóra telur að deildarlækninum sem saumaði hana, og var þá ekki orðin sérfræðingur, hafi yfirsést hversu miklum skaða hún varð fyrir í fæðingunni. „Hún í rauninni þarna á alls ekki að gera þetta ein. Og hún ofmetur eigin getu á minn kostnað. Þetta er fráleitt. Þú kallar til sérfræðilækni ef þú ert deildarlæknir þegar það er nýbúið að ryðja út úr konu tæplega 24 marka barni,“ segir Bergþóra.
Eftir fæðinguna gat Bergþóra ekki staðið upp og sýndu röntgenmyndir að lífbeinið var í sundur, og var þar um eins og hálfs sentimetra bil. Lífbeinsrofinu fylgdu óbærilegar kvalir og lá hún inni á sjúkrahúsinu næstu tvær vikur. Hún segir þær ljósmæður, sem önnuðust hana þá, hafa reynst henni ákaflega vel.
Bergþóra fór heim af fæðingardeildinni í sjúkrabíl og heimilið fylltist af hjálpartækjum, sem flest eru þar enn, nú sex árum seinna.
Síðar átti eftir að koma í ljós að lífbeinsrofið, sem smám saman gekk til baka, var aðeins hluti af fjölmörgum áverkum á stoðkerfi, vöðvum í grindarbotninum sem og varð mikill taugaskaði. Hún hélt hvorki hægðum né þvagi, og reyndist nauðsynlegt að fjarlægja bugðuristilinn. Hún þjáist enn af miklum og stöðugum taugaverkjum og verkjum í spjaldhrygg og mjaðmagrind, getur illa setið eða gengið og er alveg óvinnufær. Til að minnka óbærileg sársaukaboð frá grindarholi hefur verið græddur í hana sérstakur mænuörvi, sem truflar sársaukaboðin.
Vill fá mistökin viðurkennd
Bergþóra gagnrýnir að álitið virðist grundvallast á sérfræðingum og skráningum þeirra í sjúkraskrá hennar, en ekki sé tekið mið af hennar lýsingum sem séu aðrar en álitsgjafanna. Hún hafi þrátt fyrir allt verið viðstödd það sem gerðist.
„Það er bara dregin upp svona flott mynd og flott orð notuð, verkferlar og svona. Það er bara látið eins og ég hafi ekki greint frá þessu,“ segir hún.
Draumur Bergþóru er að geta einhverntíman endurheimt krafta til að vinna aftur sem hjúkrunarfræðingur, og þá við fræðslu og ráðgjöf.
„Það sem að heldur mér gangandi er í rauninni líka hjúkrunarfræðingurinn í mér. Af því að ég sé báðar hliðarnar og hvað þetta er rosalega veikt á báðum stöðum,“ segir hún.
En hvað er það sem hún vill ná fram?
„Fá viðurkenningu á því sem átti sér stað. Viðurkenningu á mistökum. Þarna eru bara hlutir sem má læra af. Ég í einlægni vil að það sé hægt að læra eitthvað af þessari fæðingu. Og þess vegna vil ég segja mína sögu.“
Sögu Bergþóru má nálgast í heild sinni hér