Lögfræðingurinn, uppistandarinn og rithöfundurinn, Bergur Ebbi Benediktsson, hefur undirritað samning við Stöð 2 um gerð nýrra sjónvarpsþátta. Þessu greinir Bergur frá í færslu á Facebook.
Þættirnir verða fjórir talsins og munu bera nafnið Stofuhiti. Þeir eru byggðir á bókum Bergs, Stofuhita og Skjáskoti, sem komið hafa út hjá Máli & menningu undanfarin þrjú ár.
,,Klukkan 12.45 í dag var ritað undir samning um gerð sjónvarpsþátta sem ég mun stýra og munu þeir nefnast Stofuhiti. Leikstjóri þáttanna verður hinn hæfileikaríki Magnús Leifsson. Ráðgert er að sýna þættina á Stöð 2 á næsta ári en framleiðsla er nú þegar hafin undir stjórn framleiðslufyrirtækisins Republik,“ skrifar Bergur í færslunni.
,,Þættirnir eru byggðir á útgefnum bókum mínum, Stofuhita og Skjáskoti, sem komið hafa út hjá Máli & menningu undanfarin þrjú ár, ásamt nýlegri rannsóknum. Í þáttunum sem verða fjórir talsins, mun ég leitast við að greina mynstur og stærri hreyfiöfl í samfélaginu – einkum með tilliti til nýtilkominnar tækni.“