Alvarlegt bifhjólaslys varð á veginum skammt vestan Stigár í Austur-Skaftafellssýslu, nærri Hnappavöllum, á öðrum tímanum í dag. Slysið var tilkynnt til neyðarlínu klukkan 13:36. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi.
Ásgeir Erlendsson upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar segir í samtali við Fréttablaðið að þyrla gæslunnar hafi verið kölluð út en hún síðan afturkölluð.
„Þyrlan var kölluð út en síðan reyndist ekki þörf á henni þannig útkallið var afturkallað áður en hún fór í loftið,“ segir hann.
Lögreglan veitir ekki fleiri upplýsingar um málið að svo stöddu en ekki er vitað um ástand þess sem lenti í slysinu.